Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segja tugi óbreyttra borgara hafa fallið í árásum

29.10.2020 - 04:09
epa08780641 A view of a crater after allegedly Azerbaijani shelling in the town of Shushi  (another spelling Shusha) in Nagorno-Karabakh, 28 October 2020. Armed clashes erupted on 27 September 2020 in the simmering territorial conflict between Azerbaijan and Armenia over the Nagorno-Karabakh territory along the contact line of the self-proclaimed Nagorno-Karabakh Republic (also known as Artsakh).  EPA-EFE/HAYK BAGHDASARYAN /PHOTOLURE
Sprengjugígur í bænum Shushi í Nagorno-Karabakh, sem heimamenn fullyrða að sé eftir flugskeyti Asera Mynd: EPA-EFE - PHOTOLURE
Stjórnvöld í Aserbaísjan saka Armena um að hafa fellt 21 óbreyttan borgara í eldflaugaárás á byggð í Barda-héraði, skammt frá mörkum hins umdeilda sjálfstjórnarhéraðs Nagorno-Karabakh. Tugir til viðbótar eru sagðir hafa særst í árásinni, sem gerð var í gær, miðvikudag. Er þetta önnur mannskæða árásin sem Aserar saka Armena um að hafa gert á Barda-hérað á jafn mörgum dögum.

Armensk yfirvöld þvertaka fyrir að hafa gert eða fyrirskipað nokkrar árásir á þessum slóðum síðustu daga. Þá saka þau Aserska herinn um að hafa gert árásir á íbúðabyggð í Nagorno-Karabakh í gær, sem einnig kostuðu líf óbreyttra borgara.

Þriðja vopnahléið sem fer út um þúfur

Leiðtogar ríkjanna samþykktu um helgina vopnahléssamkomulag sem gert var fyrir milligöngu Bandaríkjanna. Það hélt þó engu lengur en vopnahléin tvö sem samið var um þar á undan og gagnkvæmar árásir hófust að nýju aðeins nokkrum mínútum eftir að það átti að ganga í gildi.

Telja allt að 5.000 hafa fallið

Varnarmálaráðuneyti sjálfstjórnarhéraðsins Nagorno-Karabakh hefur upplýst að 1.068 hermenn úr héraðinu hafi fallið á þessum mánuði sem liðinn er, en Aserar hafa ekki gefið neitt upp um mannfall í sínum röðum. Rússar hafa hins vegar áætlað að alls hafi um 5.000 manns látið lífið í átökunum til þessa.

Þegar átök Armena og Asera um sjálfstjórnarhéraðið Nagorno-Karabakh brutust út að nýju hinn 27. september síðastliðinn höfðu þau legið niðri síðan 1994. Um 30.000 manns týndu lífi í stríði nágrannaríkjanna um Nagorno-Karabakh á árunum 1990 - 1994.