Ósammála um áhrif nýrra ættarnafna á forna hefð

29.10.2020 - 23:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ármann Jakobsson, formaður íslenskrar málnefndar, segir ekki hafa verið sýnt fram á það með sannfærandi hætti að nokkur einasti ávinningur felist í því að bera ættarnafn. Þeir sem haldi slíku fram þurfi að benda á skýr dæmi um slíkt. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, segir hefð sem þurfi að viðhalda með lögum sé ekki hefð heldur nauðung.

Þetta kemur fram í umsögnum þeirra við frumvarp dómsmálaráðherra um mannanöfn. 

Býsna róttækar breytingar verða á lögunum verði frumvarpið samþykkt;  mannanafnanefnd lögð niður, fólk fær að bera það nafn sem það kýs og engin takmörk verða á hversu mörg nöfn má bera. Einna umdeildast er að taka má upp ættarnafn sem margir óttast að kunni að skemma gamlan íslenskan sið; að kenna sig við föður eða móður.

Hvetur þingmenn til að staldra við  

Ármann Jakobsson, formaður Íslenskrar málnefndar og bróðir forsætisráðherra, segir í umsögn sinni að frumvarpið sé vandvirknislega unnið og þá sérstaklega greinargerðin sem ætti að hjálpa þingmönnum að gera upp hug sinn.

Hann telur að ekki hafi verið sýnt fram á slíkan vanda að mannanfnalögin krefjist jafn róttækra breytinga. Fátt sé að finna í greinargerð frumvarpsins um „knýjandi ástæður til að breyta mannanafnalögum.“ Núgildandi lög stangist ekki á við mannréttindaákvæði heldur hafi Mannréttindadómstóll Evrópu þvert á móti dregið réttilega fram að það geti verið miklir hagsmunir þjóðar að vernda tungumál sitt. „Sannarlega á það við um Íslendinga.“

Sérstaða íslenskunnar að ættarnöfn eru ekki almenn

Honum hugnast ekki að settar séu litlar hömlur á útlend mannanöfn og að dregið sé úr takmörkunum á fjölgun ættarnafna „sem getur verið varhugavert þar sem það hefur verið sérstaða íslensku að hér eru ættarnöfn ekki almenn.“

Ármann nefnir sömuleiðis neikvæða umræðu um mannanafnanefnd sem dæmi um einstefnu í opinberri umfjöllun þegar fjölmörg dæmi séu um nefndir sem sinni opinberu hlutverki sem takmarki umsvif einstaklinga. „Því er tilvist mannanafnanefndar fjarri því að vera sérstök og eina ástæðan til að einblína á hana er að hættur þær sem stafa að íslenskri tungu eru vanmetnar.“ 

Betra væri ef mannanafnanefnd yrði áfram til og alþingismenn létu moldviðrið  gegn henni sem vind um eyru þjóta.

Vill engu að síður rýmka reglur

Sama gildi um þá hugmynd að mismunun geti falist í því að til séu nokkur gömul ættarnöfn eða ný ættarnöfn innflytjenda. „Ekki hefur verið sýnt fram á með sannfærandi hætti að nokkur einasti ávinningur felist í því að bera ættarnafn og eðlilegt er að þeir sem halda því fram bendi á skýr dæmi um slíkan ávinning,“ skrifar Ármann.

Ef slíkur mismunur væri til væri réttast að banna ættarnöfn með öllu þannig að þeir sem væru á lífi og væru með ættarnafn fengju að bera það heiti til dánardags en ekki þeir sem síðan fæðast. „Afar slæm lausn á vandanum væri að ættarnöfn verði hér allsráðandi því að það er einmitt sérstaða íslenskrar tungu að ættarnöfn eru ekki almenn.“

Hann tekur þó undir að nauðsynlegt sé að rýmka reglur og leyfa að kenna sig til annarra ættingja en foreldra enda kunni það að valda fólki sársauka að burðast með nöfn þeirra sem ollu því miska. „Ættarnöfn eru þó fjarri því að vera eina lausnin á þeim vanda

Formaður Íslenskrar málnefndar.
 Mynd: Orðbragð - RÚV
Guðrún Kvaran, fyrrverandi formaður Íslenskrar málnefndar.

Guðrún Kvaran, fyrrverandi formaður mannanafnanefndar og Íslenskrar málnefndar, segist ekki hafa ætlað að skrifa umsögn um frumvarpið. 

Afskipti ráðherra af mannanafnanefnd

Í umsögn sinni rifjar hún upp fund allsherjarnefndar fyrir tveimur árum vegna frumvarps um sama efni en henni hafi fundist áhugi nefndarmanna á því sem hún hafði að segja afar takmarkaður.

Öldruð kona frá Egilsstöðum hafi fengið hana til að setjast niður og skrifa umsögn en gamla konan spurði: „Hvað er Alþingi að hugsa?“

Guðrún hvetur þingmenn til að standa vörð um þann menningararf Íslendinga að kenna sig til föður eða móður.  Hún hafi áður skrifað um það og ætli ekki að gera það einu sinni enn. „Það er að bera í bakkafullan lækinn.“ Hún segir fjölmiðla hafa átt þátt í því að sverta mannanafnanefnd og að talað hafi verið um hana eins og hún sé afsprengi hins illa.  

Nefndin hafi ekki tekið geðþóttaákvarðanir og tvívegis hafi nefnd sem hún sat í sagt af sér vegna tilburða tveggja ráðherra sem vildu gera meira fyrir Jón en séra Jón. „Nefndirnar fóru báðar að lögum sem ráðherrarnir gátu ekki sætt sig við.“

Undir lok umsagnar sinnar segir hún frumvarpið „firnavont“ og engu betra en þau tvö sem hún skrifaði umsagnir um fyrir tveimur árum. „Ég veit ekki af hverju ég er að þessu, e.t.v. fyrir öldruðu konuna á Egilsstöðum.“

Jóhannes B. Sigtryggsson, sem var ráðgjafi við samningu frumvarpsins og er rannsóknarlektor við stofnun Árna Magnússonar,  hefur sömuleiðis áhyggjur af hinum séríslenska kenninafnasið og telur að með frumvarpinu sé núverandi kenninafnakerfi kollvarpað. 

Eins og að leyfa vinstri og hægri umferð samtímis

Hann segir þetta mikilvægan menningararf og ábyrgðarhlutur að vega að því.  „Þetta forna kenninafnakerfi var ríkjandi á Norðurlöndum á landnámsöld en er horfið þar alls staðar annars staðar sem grunnkerfi. Þessi siður er einstök menningararfleifð sem um leið er lifandi hefð sem sátt er um hjá þorra fólks.“ Ef ættarnöfn yrðu gefin frjáls væri slíkt hörð atlaga að þessu kerfi.

Það megi líkja því við að leyfa samtímis vinstri og hægri umferð á vegum að ætla að halda í föðurnafnasiðinn en gera ættarnöfn um leið frjáls. „Að láta slíkt grunnkerfi fyrir róða er óafturkræf ákvörðun sem yrði þá um leið tekin fyrir komandi kynslóðir.“  

Jóhannes nefnir sem lausn að þeir sem vilji ekki kenna sig við einhvern annan eða sækja um ættarnafn vegna sérstakra aðstæðna ættu að geta sótt um slíkt til dómsmálaráðherra með rökstuðningi fyrir undanþágu. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Hallfríður Þórarinsdóttir, mannfræðingur.

Aðrir fræðimenn sem hafa skilað umsögn eru þó jákvæðari í garð frumvarpsins.

Hallfríður Þórarinsdóttir, mannfræðingur, segir frumvarpið bera með sér nýja vinda og frjálslegri hugsun en tíðkast hefur um persónuleg nöfn. „Það er mikið fagnaðarefni að ekki er lengur gengið út frá því sem sjálfsögðum hlut að fólk sé dregið í dilka - eftir stétt eða menningarlegum uppruna - líkt og gert er í núgildandi lögum.“

Leiðarljós í frumvarpinu sé jöfnuður og lýðfrelsi fremur en forræðishyggja, valdboð og mismunun.

Ber vott um vantraust á dómgreind fólks

Hún fagnar því að hlutverki mannanafnanefndar sé að fullu lokið og segir mismunun borgara lýðveldisins hafi meðal annars verið viðhaldið með boðum og bönnum nefndarinnar og úrskurðum hennar.

Hallfríður segir að sú hefð að kenna sig við föður eða móður sé alls ekki séríslensk eins og stundum sé látið í veðri vaka.  „Ótti við að hefðin hverfi úr íslenskri menningu ber vott um vantraust á dómgreind fólks og veika trú á hefðir. Ólíklegt verður að teljast að þessi hefð líði undir lok þó gefin verði heimild til upptöku ættarnafna.“

Ættarnöfn séu táknrænn auður sem gengið hafi í erfðir frá kynslóð til kynslóðar. „Lagaleg takmörkun á meðfæddum auði - úthlutun til fárra útvalinna - er eitt argasta dæmið um lögfesta mismunun í íslensku samfélagi og brot á stjórnarskrá Íslands.“

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Eiríkur Rögnvaldsson

Eiríkur Rögnvaldsson, sem hefur ekki farið leynt með stuðning sinn við frumvarpið, segir í umsögn sinni að fyrirliggjandi frumvarp skaði ekki íslenska tungu á nokkurn hátt. 

Ákveðið þjóðareinkenni sem margir vilji halda í þess vegna

Þvert á móti sé það veruleg réttarbót og afnemi þá mismunun sem felist í gildandi  lögum.  „Stífar reglur sem vísa í íslenska málstefnu en samræmast ekki jafnréttishugmyndum og stríða gegn réttlætiskennd fólks geta orðið til þess að ala á neikvæðum viðhorfum fólks til íslenskunnar.“ Það sé eitthvað sem íslenskan þurfi síst á að halda.

Hann segir að vissulega sé kenning til föður eða móður menningarhefð sem æskilegt sé að viðhalda. Hefðir séu aftur á móti lítils virði nema samfélagið þar sem þær gilda hafi áhuga á að halda í þær. „Hefð sem þarf að viðhalda með lögum er ekki hefð - heldur nauðung.“

Hann telur enga ástæðu til að ætla að fólk myndi í stórhópum leggja niður föður-og móðurnöfn og taka upp ættarnöfn í staðinn þótt slíkt yrði leyft.  Í Danmörku og Noregi hafi fólk verið skikkað til þess með lögum en það hafi færst í vöxt á seinustu árum að kenna sig til föður í Færeyjum.  

Eiríkur bendir enn fremur á að Íslendingar hafi einir haldið þeim sið að kenna sig til föður eða móður. Þetta sé þá ákveðið þjóðareinkenni sem vel megi hugsa sér að margir vilji halda í þess vegna.

Allar umsagnir um frumvarpið má nálgast hér.