Nær öll fíkniefnaviðskipti fara fram með snjallforriti

29.10.2020 - 17:00
Mynd: Á allra vörum / Á allra vörum
Í nýrri rannsókn á íslenska fíkniefnamarkaðinum kemur fram að auðvelt er að selja og nálgast vímuefni með því að nota snjallforrit. Þar kemur einnig fram að seljendur óttast ekki mikið afskipti lögreglu. Ágóðinn af sölunni vegi þyngra en afleiðingarnar. Félagsfræðingur sem gerði rannsóknina segir að um háar peningaupphæðir sé að ræða á íslenska fíkniefnamarkaðinum.

Áður notuðu menn síma

„Ég sendi honum skilaboð í gegnum Telegram og við hittumst svo í kjölfarið af því.“  Þetta segir einn af níu viðmælendum í rannsókn Söru Mjallar Vatnar Skjaldardóttur, félagsfræðings, á íslenska fíkniefnamarkaðinum. Markmið hennar var að kanna hvernig þessi markaður hefur þróast á síðastliðnum árum. Hún segir að fíkniefnaviðskiptin fari fyrst og fremst fram á samfélagsmiðlum eða í snjallforritum. Hún segir að fyrir um það bil tíu árum hafi menn notað síma og hringt í fíkniefnasalana.

„En í dag er einfaldlega nóg að skrá þig inn á samfélagsmiðil og þú getur orðið þér út um efni með þeim hætti,“ segir Sara Mjöll.

Sara Mjöll gerði þessa rannsókn í tengslum við meistaraprófsritgerð sína. Hún talaði við níu einstaklinga sem voru annaðhvort kaupendur eða sölumenn - eða hvoru tveggja. Þeir voru á aldrinum 24 til 35 ára.

Snjallforritið Telegram

Það er ekki alveg nýtt að þessi viðskipti fari fram á t.d. Facebook en nú er það snjallforritið Telegram sem virðist vera mest notað. Einn viðmælandi taldi að 90% viðskiptanna færu nú fram í þessu snjallforriti. Ástæðan er að þar er auðvelt að fela slóð sína.

„Telegram er kóðað snjallforrit. Þú getur skráð þig inn á Telegram og samskiptin á milli einstaklingana eyðast. Það tryggir nafnleynd. Einstaklingar finna þá jafnvel fyrir öryggistilfinningu. Slóðinni er eytt og það er erfitt að tengja þá við markaðinn.“

Mynd með færslu
Sara Mjöll Skjaldardóttir

Óttast ekki lögregluna

Hún segir að þetta sé sambærilegt við þróun annars staðar. Viðskiptin gangi út á að tryggja nafnleynd og fela slóðina. Væntanlega er það til að lögreglan geti ekki fylgst með og handtekið viðkomandi. Hins vegar kemur fram í rannsókninni að viðmælendur Söru Mjallar óttast samt ekki mikið lagana verði.

„Þeir töluðu flest allir um að afleiðing þess að selja vímuefni væri ekki mikil. Þar af leiðandi óttuðust þeir ekki mikið ef lögreglan myndi komast að því að þeir væru að selja vímuefni,“ segir Sara Mjöll

Græddu tugi milljóna

Það kemur fram að þeir sem lenda í klóm lögreglunnar telja ekki eftir sér að sitja inni eða greiða sekt.

„Nei, þeir töluðu þá um að þeir myndu þá borga sektina sem þeim yrði gefin eða sitja inni þann dóm sem þeir fengju. En ágóðinn af því að selja  vímuefni vegur miklu meira en afleiðingarnar.“ En kemur fram í rannsókninni að það sé um mikla peninga að tefla? „Það eru miklar peningaupphæðir inni á íslenska fíkniefnamarkaðinum. Þeir sem voru að selja vímuefni töluðu um að þeir hefðu grætt tugi milljóna bara fyrir mjög stuttan tíma sem þeir voru að selja.“

Hvaða efni er síðan verið að selja og kaupa? Úrvalið virðist vera mikið.

„Það er kókaín, amfetamín, MDMA, kannabis, lyfseðilsskyld lyf, LSD og sveppir. Það er bara öll flóran.“

Neikvæðu áhrifin

Sara Mjöll beindi í sinni rannsókn athyglinni ekki sérstaklega að ofbeldi og hörkunni sem ríkir í fíkniefnaheiminum. Einn viðmælandi sagði: „Inni í þessum bransa ríkir mikill heiðarleiki og virðing, þetta er ekkert öðruvísi en að reka fyrirtæki.“ Hins vegar reyndi hún að varpa ljósi á neikvæð áhrif fíkniefnamarkaðarins, eins og andlát og raunir fíkniefnaneytenda.

„Það var mjög áberandi þegar ég var að taka viðtölin að þeir einstaklingar sem neyttu einungis kannabis höfðu ekki upplifað eins mikil neikvæð áhrif fíkniefnamarkaðarins eins og þeir sem voru að neyta eða selja harðari vímuefni. Þegar ég tala um neikvæð áhrif er ég að tala um andlát eða dauðsföll eða vera í lífshættu sjálfur og afskipti lögreglu. Þeir sem neyttu harðari efna; kókaíns, amfetamíns, MDMA eða þess háttar áttu að baki fleiri meðferðarinnlagnir og afskipti lögreglu voru meiri. Þeir höfðu líka misst vini og kunningja og jafnvel sjálfir oft verið í lífshættu,“ segir Sara Mjöll.

Um 30 vinir og kunningjar létust

Viðmælendur Söru höfðu allir neytt vímuefna en voru allir hættir neyslu þegar viðtölin fóru fram. Meirihluti þeirra hafði farið í meðferð. Þeir voru allir sammála því að fíkniefnamarkaðinum fylgdu neikvæðar afleiðingar. Dauðinn væri ein afleiðing og þeir voru sammála um að dánartíðni vegna fíkniefna hefði aukist á síðustu árum. Átta af níu þátttakendum höfðu misst kunningja eða náinn vin í kjölfar vímuefnaneyslu. Einn sagði t.d. að hann hefði þekkt um 20 einstaklinga sem hefðu látist af völdum vímuefna á síðustu tveimur árum. Annar viðmælandi, sem hafði verið sprautufíkill í fimm ár, sagði að hátt í 30 vinir og kunningjar hefðu látist vegna vímuefnaneyslu. Nokkrir af viðmælendunum höfðu verið við dauðans dyr. „Ég hef verið lífgaður við oftar en einu sinni og oftar en tvisvar,“ sagði einn. Annar sagði að hann hefði oft verið nálægt því að deyja.

Afskipti lögreglu

Sjö af viðmælendum Söru höfðu komist í kast við lögin. „Hef oftast verið tekinn fyrir vörslu en hef líka vera tekinn fyrir sölu, margvíslegan þjófnað, grunaður um innbrot og ég hef fengið dóma fyrir vopnalagabrot og líkamsárás.“ sagði einn viðmælandi. Yngsti þátttakandinn sagði að lögregla hefði þurft að hafa afskipti af honum þrjátíu sinnum. Annar sagði að lögreglan væri með um 100 skjöl um sig um afskipti, handtökur og þrjá dóma. Þrátt fyrir mikil afskipti lögreglu héldu þátttakendurnir sjö áfram að neyta vímuefna og selja þau, segir í rannsókninni.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV