Leit stendur enn yfir í Stafafellsfjöllum

29.10.2020 - 06:08
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg
Leit stendur enn yfir að manni sem óttast er um í Stafafellsfjöllum í Lóni. Björgunarsveitir af Austurlandi voru kallaðar út klukkan átta í gærkvöld til að leita mannsins og hefur leit staðið yfir óslitið síðan. Elín Birna Vigfúsdóttir hjá Björgunarfélagi Hornafjarðar segir tugi björgunarsveitarfólks af Austurlandi hafa tekið þátt í leitinni í nótt og von fjölda fólks til viðbótar innan stundar, af Austur- og Suðurlandi.

Leiðindaveður hefur verið á leitarsvæðinu, kalsarigning og strekkingsvindur. Veður og skyggni voru þó ekki verri en svo að þyrla Landhelgisgæslunnar hefur nýst við leitina. Þá hefur verið notast við sporhund og dróna í leitarstörfunum. Þegar fréttastofa náði tali af Elínu Birnu voru um 15 manns úti við leit, tugir í hvíld eftir nóttina og um 100 manna liðsauki á leiðinni. 

Fréttin var uppfærð kl. 06.40
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV