Tekjuhrun í menningargreinum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Menningin

Tekjuhrun í menningargreinum

28.10.2020 - 10:19

Höfundar

Launagreiðslur í menningartengdum atvinnugreinum féllu um nærri fjórðung milli ára í upphafi COVID-19 faraldursins. Hagstofan birti í dag tilraunatölfræði þar sem áhrif faraldursins á atvinnugreinar menningar eru metin.

Launagreiðslur í þeim greinum voru 23 prósent lægri í apríl en þær voru í sama mánuði i fyrra. Launagreiðslurnar hækkuðu fram í ágúst en voru þá enn um fimm og hálfu prósenti lægri en árinu áður. Á sama tíma hækkuðu launagreiðslur í samfélaginu almennt um rúmt eitt prósent. Bæði starfsfólki og launagreiðendum í menningu fækkaði milli ára, meira en í atvinnulífinu almennt. Launagreiðendum fækkaði um rúm sex prósent frá ágúst í fyrra til sama mánaðar í ár og starfsfólki um rúm níu prósent. Tölur um launagreiðendur ná þó ekki til einyrkja, sem reikna sér endurgjald af tekjum og eru ekki í föstu starfi.

Um tvö prósent þeirra sem voru á hlutabótum í mars til apríl voru starfandi í atvinnugreinum menningar og 3,6 prósent þeirra í júní til ágúst. 457 menningarfyrirtæki hafa nýtt sér frestun skattgreiðslna og eru 5,9 prósent þeirra fyrirtækja sem hafa nýtt sér það úrræði. Menningarfyrirtæki eru alls 7,4 prósent þeirra sem hafa nýtt sér stuðningslán, það hafa 45 fyrirtæki í atvinnugreinum menningar nýtt sér. 29 fyrirtæki hafa nýtt sér lokunarstyrki og 38 styrki til greiðslu launa á uppsagnarfresti.