Sjálfstæðisflokkurinn tapar tæplega fjórum prósentustigum á milli mánaða samkvæmt nýrri könnun MMR. Flokkurinn er þó áfram stærsti flokkur landsins. Um helmingur styður ríkisstjórnina.
Sjálfstæðisflokkurinn mældist í septembermælingu MMR með 25,6% fylgi en nú með 21,9% fylgi. Eina marktæka breytingin á fylgi flokka á milli mánaða er hjá Sjálfstæðisflokki, en breytingar á fylgi annarra flokka er innan vikmarka.
Samfylkingin mælist næst stærsti flokkur landsins með rétt rúm 15% og Píratar koma næstir með 13,5%. Stuðningur við ríkisstjórnina mælist 50,3%.
Könnunin var framkvæmd dagana 23.-28. október og 933 einstaklingar, 18 ára og eldri, svöruðu. Miðað við það getur raunverulegt fylgi flokka verið einhvers staðar á bili sem er 3,1% hærra eða lægra en niðurstaðan gefur til kynna. Þess vegna er breyting á fylgi Sjálfstæðisflokksins það eina sem telst marktækt.