Rakarastofur lokaðar, en rakaratónlist leyfileg

Mynd með færslu
 Mynd: Tammy Green. - Wikimedia Commons.

Rakarastofur lokaðar, en rakaratónlist leyfileg

28.10.2020 - 20:37

Höfundar

Um þessar mundir eru rakarastofur á höfuðborgarsvæðinu lokaðar vegna varúðarráðstafana út af Covid-19-veirunni. Það er hins vegar ekki bannað að hlusta á tónlist sem tengist rakstri og rökurum, en þar er af nógu að taka

Frægasti rakari tónbókmenntanna er vafalaust rakarinn í Sevilla, sjálfur Fígaró. Gioacchino Rossini samdi gamanóperu sína, „Rakarinn í Sevilla“ (Il barbiere di Siviglia) árið 1816 og byggði hana á leikriti franska höfundarins Beaumarchais frá 1775. Arían „Largo al factotum“ þar sem Fígaró kynnir sig fyrir áhorfendum er eitt þekktasta atriði óperunnar. Í aríunni segist hann vera mesti þúsundþjalasmiður borgarinnar, enda sé rakarastarfið það besta í heimi. Hann sé svo eftirsóttur að hvarvetna kalli viðskiptavinir á öllum aldri og af báðum kynjum: „Fígaró, Fígaró, Fígaró!“

Rakarinn í Bagdad

En það eru til óperur um fleiri rakara en Fígaró. Árið 1858 samdi Peter Cornelius óperuna „Rakarinn í Bagdad“ (Der Barbier von Bagdad) og byggði hana á sögu úr „Þúsund og einni nótt“. Óperan gerist að sjálfsögðu í Bagdad, en þar er ungur maður, Núreddín, sem er að fara á langþráð stefnumót við draumadísina sína og vill að sjálfsögðu flýta sér sem mest. Hann vill þó láta raka sig fyrst og biður þjón sinn að ná í rakara. Brátt kemur rakarinn Abúl Hassan Alí Ebn Bekar, gamall maður með sítt skegg. En í stað þess að taka til starfa heldur rakarinn mikla ræðu um heilsu og stjörnuspeki. Þegar Núreddín missir þolinmæðina og ætlar að senda eftir öðrum rakara svarar rakarinn með aríu þar sem hann telur upp alla sína góðu kosti og segir að enginn rakari jafnist á við sig, hann sé hálærður læknir og efnafræðingur, stærðfræðingur, málfræðingur, sagnfræðingur, stjörnufræðingur, lögfræðingur, listmálari, skáld og tónlistarmaður. Út yfir tekur þó þegar rakarinn heimtar að fá að koma með Núreddín á stefnumótið og verður úr því hin versta flækja.

Rakhnífskvartettinn

Strengjakvartett í f-moll Op.55 nr.2 eftir Joseph Haydn hefur hlotið viðurnefnið Rakhnífskvartettinn. Carl Ferdinand Pohl, sem skráði ævisögu Haydns á 19. öld, segir þá sögu að morgun einn árið 1789 hafi Haydn verið að raka sig með bitlausum rakhníf og hreytt úr úr sér í gremju: „Ég skyldi láta besta kvartettinn minn fyrir almennilegan rakhníf“. Enski útgefandinn John Bland, sem var þarna í heimsókn, var fljótur að sækja besta rakhnífinn sinn og afhenda Haydn hann, en fékk í staðinn f-moll-kvartettinn til útgáfu. Sumir tónlistarfræðingar eru að vísu tortryggnir á sannleiksgildi þessarar sögu, en samt fylgir viðurnefnið kvartettinum.

Söngur rakarakvartetta

„Rakarakvartett“ er hins vegar orð sem yfirleitt er ekki haft um strengjakvartetta, heldur um söngkvartetta, einkum karlakvartetta sem syngja margraddað án undirleiks í sérstökum stíl. Á ensku er notað orðið „barbershop quartet“ og talið er að nafngiftin sé upprunnin í Bandaríkjunum þar sem söngur af þessu tagi átti sitt blómaskeið á seinni hluta 19. aldar og á fyrstu áratugum 20. aldar. Mönnum kemur hins vegar ekki saman um það hvers vegna var farið að tengja rakara við þennan söngstíl. Oft klæðast rakarakvartettar gamaldags fötum, röndóttum vestum eða jökkum, og hafa stráhatta á höfðinu.

Tónlist tengd rakstri og rökurum verður flutt í þættinum Á tónsviðinu fim. 29. okt. kl. 14.03.