Hvernig kemst Ísland á EM?

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Hvernig kemst Ísland á EM?

28.10.2020 - 07:30
Ísland tapaði mikilvægum leik gegn Svíþjóð í gærkvöld í undankeppni EM kvenna í fótbolta. Þó er draumurinn um að komast á EM langt frá því að vera úti.

Ísland og Svíþjóð gerðu jafntefli í síðasta leik liðanna á Laugardalsvelli í september sem kom Íslandi í góða stöðu í riðlinum. Nú skilja sex stig liðin að en Ísland á eftir tvo leiki en Svíþjóð einn. Þrátt fyrir að Ísland geti jafnað Svíþjóð að stigum með því að vinna næstu tvo leiki ef Svíar tapa sínum síðasta leik er Svíþjóð búið að tryggja sér efsta sæti riðilsins með því að hafa betur í innbyrðisviðureignum liðanna. Þá tryggðu Noregur og Danmörk sér einnig efstu sætin í sínum riðli í gærkvöld og eru því líka komin á EM.

Hvernig virkar undankeppnin?

Í þessari undankeppni fer efsta lið hvers riðils beint á Evrópumótið og Svíar hafa því tryggt sér sæti þar í F-riðli. Hins vegar fara þrjú lið með bestan árangur í öðru sæti beint á EM og hin sex liðin í öðru sæti fara í umspil um þrjú laus sæti á mótinu.

Ísland er sem stendur í öðru sæti riðilsins með þriggja stiga forskot á næsta lið. Ísland leikur gegn Ungverjalandi og Slóvakíu síðustu tvo leikina í riðlinum, báða á útivelli. Slóvakía er með 10 stig í þriðja sæti riðilsins og Ungverjaland í fjórða sæti með 7 stig. Sigrar í þessum tveimur leikjum gæti því hæglega komið Íslandi beint á EM en það kemur betur í ljós þegar á líður þar sem það er misjafnt hvort lið eiga eftir að spila einn eða tvo leiki.

Myndin hér að neðan sýnir stöðu liðanna í öðru sæti í sínum riðli en margt getur breyst í þeim leikjum sem á eftir að spila. Þegar Ísland á tvo leiki eftir er íslenska liðið í fimmta sæti af liðunum sem eru í öðru sæti í riðlunum níu. En það sem flækir málin enn frekar er að í tveimur riðlum, riðlum A og B, eru 6 lið, en í hinum sjö riðlunum eru bara 5 lið. Það þýðir að í riðlunum með 5 liðum gilda öll úrslit en í riðlum A og B, þar sem eru 6 lið gilda bara úrslit gegn efstu fimm liðunum.

Ef Ísland vinnur Ungverjaland og Slóvakíu er liðið því ekki endilega komið beint á EM. En að minnsta kosti í umspil um sæti - og ef allt fer eins og best verður á kosið fer íslenska kvennalandsliðið beint á EM sem verður í Englandi 2022.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Skjáskot af Wikipediu sem sýnir stöðu liða í 2. sæti í sínum riðli.

Tengdar fréttir

Fótbolti

„Mér fannst við gefa allt í þennan leik“

Fótbolti

„Við setjum þetta til hliðar og komum okkur á EM“

Fótbolti

Myndskeið: Mörk Svíþjóðar gegn Íslandi

Fótbolti

Svíþjóð hafði betur á heimavelli gegn Íslandi