Hádegisfréttir: Sóttvarnalæknir svartsýnni

28.10.2020 - 12:04
86 greindust með COVID hér á landi í gær. Einstaklingur á níræðisaldri lést í gær af völdum COVID og hafa þá tólf látist í faraldrinum hér. Aukinnar svartsýni gætir hjá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni, sem segist ekki sjá fram á afléttingu aðgerða.

Hádegisfréttir verða sagðar klukkan 12:20.

Faraldurinn virðist vera í töluverðum vexti á Norðurlandi eystra en 51 er þar í einangrun.  Lögreglan hefur óskað eftir því að allir viðskiptavinir sem heimsóttu veitingastaðinn Berlín síðastliðinn laugardag gefi sig fram. 

Lögreglan á Vestfjörðum hefur lokið skýrslutöku á 23 skipverjum á Júlíusi Geirmundssyni. Lögreglunni hefur enn ekki borist kæra frá stéttarfélögunum fimm. Enginn hefur réttarstöðu sakbornings sem stendur en málið er rannsakað á grundvelli sjómanna- og sóttvarnalaga. 

Tyrkir hóta hörðu vegna skopmyndar af Erdogan Tyrklandsforseta á foríðu franska tímaritisins Charlie Hebdo. Forseti Írans varar fólk við því að smána spámannin Múhameð og segir það geta leitt til átaka og blóðsúthellinga.

Íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í fjarheilbrigðiskerfum fékk nýverið tæplega þriggja milljarða fjármögnun. Forstjórinn segir að þörf fyrir fjarheilbrigðiskerfi sé enn meiri nú þegar heimsfaraldur geisar en áður.

Störfum í atvinnugreinum menningar hefur fækkað meira en í atvinnulífinu í heild sinni af völdum COVID. Laun fyrir menningarstörf hafa lækkað á sama tíma og laun hafa almennt hækkað milli ára.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi stjórnmálaflokka á Alþingi, eða 21,9 prósent, samkvæmt nýrri könnun MMR á fylgi flokka. Það er engu að síður tæplega fjórum prósentustigum lægra en flokkurinn mældist með í september. Stuðningur við ríkisstjórnina dalar.

Yfir tvö þúsund almennir borgara féllu í stríðinu í Afganistan fyrstu níu mánuði ársins. Enn geisa þar harðir bardagar þrátt fyrir samkomulag Talibana og Bandaríkjamanna og friðarviðræður stjórnvalda og Talibana.

Rjúpnaveiðifólk er hvatt til að bíða með veiði fyrir austan og halda sig frekar í heimabyggð vegna viðkvæmrar stöðu faraldursins á höfuðborgarsvæðinu. Veiðitímabilið hefst á sunnudaginn. 

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV