Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Enn óvíst hvernig Strætó mætir tekjutapi

28.10.2020 - 13:24
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Ákvörðun um það hvernig tekjutapi Strætós vegna COVID-19 verður mætt á næsta ári hefur ekki verið tekin. Stjórnendur Strætós og stjórn byggðasamlagsins hafa undanfarið unnið að gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár. Stefnt er að því að niðurstaðan liggi fyrir á næstu dögum.

 

Tekjur Strætós drógust saman um 800 milljónir króna í ár eftir að faraldurinn hófst. Færri ferðuðust með Strætó og minna hefur verið um kaup á áskriftarkortum en venja er til. Rætt hefur verið við stjórnir sveitarfélaganna sem eiga Strætó og ríkið um hugsanlega aðkomu til að koma í veg fyrir að skerða þurfi þjónustu.

Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætós, sagði í samtali við fréttastofu í dag að hann væri enn bjartsýnn á að niðurstaða lægi fyrir áður en mánuðurinn er úti. Aðspurður hvort til þess gæti komið að þjónusta skertist sagði hann að vel væri fylgst með nýtingu strætisvagnaferða.