Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Brotist inn á kosningavef Trumps

epa08778231 US President Donald J. Trump speaks to the media as he departs the White House for his last week of re-election campaigning, in Washington, DC, USA, 27 October 2020.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tölvuþrjótar náðu að brjótast inn á vefþjón kosningstjórnar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í gær og yfirtaka framboðsvefinn um stund, aðeins viku fyrir kosningar. „Þessi vefur hefur verið yfirtekinn,“ - þannig byrjuðu skilaboð hakkaranna til þeirra sem fóru inn á vefinn donaldjtrump.com, þar sem venjulega er að finna allar upplýsingar um kosningafundi og aðrar uppákomur í kosningabaráttu Trumps, auk upplýsinga um leiðir til að styrkja framboð hans.

Samsæriskenningar og hótanir

„Heimurinn hefur fengið nóg af falsfréttunum sem er dreift af donald j trump á degi hverjum,“ stóð í yfirlýsingu hakkaranna, sem sögðu tímabært að heimurinn fengi „að heyra sannleikann.“ Sá tiltekni sannleikur virðist meðal annars fela í sér að ríkisstjórn Trumps eigi þátt í að skapa kórónaveiruna, sem nú herjar á heimsbyggðina.

Árásinni hrundið hratt og örugglega

Tim Murtaugh, talsmaður kosningastjórnar forsetans, sagði að árás hakkaranna hefði verið hrundið hratt og örugglega og engum viðkvæmum gögnum verið spillt eða stolið. „Vefsíða Trump-framboðsins var afskræmd og við vinnum með lögregluyfirvöldum að því að rannsaka uppruna árásanna,“ sagði Murtaugh.

Þrjótar í leit að rafmynt

Á tækni- og vísindavefnum Techchrunch er fullyrt að svikahrappar hafi yfirtekið síðuna með því markmiði að kúga háar upphæðir í formi rafmyntar út úr framboði Trumps. Héldu þrjótarnir því fram að þeir hefðu „fullan aðgang að Trump og fjölskyldu“ og byggju yfir „afar leynilegum samtölum og upplýsingum“ sem þeir myndu birta, fengju þeir ekki greitt. Ekkert bendir til þess að þeir hafi búið yfir neinum slíkum upplýsingum í raun, segir í frétt Techcrunch.com