Tapaði „verulegum fjármunum“ sem viðskiptavinur Glitnis

27.10.2020 - 12:52
Mynd með færslu
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson - RÚV
Endurupptökunefnd hefur fallist á beiðni Magnúsar Arnar Arngrímssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Glitni, um að dómur Hæstaréttar í máli hans verði endurupptekinn. Nefndin telur að Magnús hafi haft ástæðu til að draga óhlutdrægni Hæstaréttar í efa þar sem einn af dómurunum í máli hans tapaði verulegum fjármunum sem viðskiptavinur Glitnis.

Magnús Arnar var í Hæstarétti dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir aðild sína að BK-málinu svokallaða sem snerist um lánveitingu til félagsins BK-44 uppá 3,8 milljarða.  Hann fór fram á endurupptöku á málinu fyrir þremur árum eftir að Kastljós fjallaði um hlutabréfaeign hæstaréttardómara. Nefndin úrskurðaði í málinu í síðustu viku og greindi Fréttablaðið frá honum í morgun.

Viðtal saksóknara nefnt sem ein ástæða fyrir endurupptöku

Ástæðan fyrir þessum töfum segir nefndin að megi fyrst og fremst rekja til þess að endanleg skipan nefndarmanna hafi ekki legið fyrir fyrr en í janúar á þessu ári.

Í endurupptökubeiðni Magnúsar eru tíundaðar nokkrar ástæður fyrir því að mál hans ætti að vera tekið upp að nýju. Meðal annars er vitnað til viðtals við héraðssaksóknara í Financial Times sem hann telur sanna að ákæra eigi undirmenn fyrir frumbrot ef þeir fella ekki sök á yfirmenn sína. 

Þá telur hann að sönnunargögn hafi verið rangt metinn og að verjandi hans hafi ekki fengið aðgang að öllum rannsóknargögnum.  Að lokum sé það svo hlutabréfaeign dómara  í málinu sem ekki hafi verið vitað um fyrr en Kastljós fjallaði um hana.

Saksóknari: Breyti engu þótt dómarar hafi tapað fjármunum

Ríkissaksóknari lagðist gegn endurupptöku og sagði að ekki yrði séð að hagsmunir dómaranna hefðu á nokkurn hátt verið fyrir borð bornir af sakborningum í málinu. 

Hrun íslenska bankakerfisins eða gjaldþrot Glitnis hafi ekki verið afleiðing af brotum Magnúsar Arnars. Þá breyti það engu um hæfi dómaranna þótti þeir hafi tapað einhverjum fjármunum á bankahruninu. 

Tveir dómarar áttu eign í Glitni

Tveir dómarar í málinu áttu hlutabréf í Glitni þegar meint brot Magnúsar áttu sér stað; Ólafur Börkur Þorvaldsson og Markús Sigurbjörnsson. Nefndin segir það liggja fyrir að þeir hafi ekki tilkynnt nefnd um dómarastörf um eignarhald sitt á hlutabréfunum eins og þeir áttu að gera samkvæmt þágildandi reglum um dómstóla. Markús sendi sína tilkynningu rúmum mánuði eftir umfjöllun Kastljóss og Ólafur Börkur tveimur mánuðum eftir fréttina.

Nefndin skoðaði eignir beggja dómara og telur að í tilviki Ólafs Barkar hafi ekki mátt draga óhlutdrægni hans í efa. Hann hafi eignast hlutabréf í bankanum fyrir 14 milljónir í júlí 2007 og selt þau í desember sama ár. Meint brot Magnúsar Arnars áttu sér stað í nóvember og á þeim tíma féllu hlutabréfin í verði um rúma hálfa milljón sem teljist ekki vera slíkt tjón að það geti valdið vanhæfi dómara.  Þá hafi hann verið búinn að selja hlutabréfin áður en bankinn féll.

Tap Markúsar „margföld mánaðarlaun hans“ 

Í tilviki  Markúsar kemur fram að hann hafi tapað nærri átta milljónum þegar Glitnir féll og segir nefndin að þetta hafi verið margföld mánaðarlaun hans. Þá telur nefndin engu máli skipti hvort tjónið megi rekja til hlutabréfaeignar hans eða eignar í hlutabréfasjóðum. Hinir fjárhagslegu hagsmunir hafi verið þeir sömu og það varði dómarann sama áfallinu að tapa fénu, á hvorn veginn sem er.  

Nefndin bendir á að Markús hafi verið viðskiptavinur Glitnis og tapað verulegum fjármunum í þeim viðskiptum.  Magnús Arnar hafi verið ákærður fyrir háttsemi sem varðaði gríðarlegar fjárhæðir og verið til þess fallinn að valda Glitni stórfelldu tjóni. Magnús hafi auk þess verið einn af stjórnendum bankans og í ljósi þeirra fjármuna sem fóru forgörðum hjá dómaranum  hafi atvik og aðstæður verið með þeim hætti að Magnús mátti hafa ástæðu til að draga óhlutdrægni dómstólsins í efa. Engu máli skipti þótt nokkur tími hafi liðið frá tjóni dómarans og þar til hann dæmdi í málinu.

Þungur dómur fyrir einn tölvupóst

Páll Rúnar M Kristjánsson, lögmaður Magnúsar, segir í samtali við fréttastofu að aldrei hafi nokkur maður hlotið jafn þungan dóm fyrir að senda einn tölvupóst. 

Þetta er í þriðja sinn sem endurupptökunefnd fellst á endurupptöku hæstaréttardóma vegna hlutabréfaeignar dómara.

Í fyrra féllst nefndin á beiðnir Sigurjóns Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, og Elínar Sigfúsdóttur, framkvæmdastjóra hjá bankanum. Nefndin horfði þar til þess að hæstaréttardómarinn Viðar Már Matthíasson hefð orðið fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni þegar Landsbankinn féll en hann átti hlutabréf í bankanum fyrir 15 milljónir sem síðar urðu verðlaus.