Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sjúklingar skimaðir fyrir flutning á aðrar deildir

COVID-ástand á Landakoti
 Mynd: Landspítali/Þorkell Þorkelsso - Ljósmynd
Sjúklingar sem til stendur að flytja yfir á aðrar deildir Landspítalans verða nú skimaðir fyrir kórónuveirunni. Þetta eru meðal annars Grensás, Kleppur og Vífilsstaðir. Ekki er talið nauðsynlegt að skima sjúklinga sem flytjast milli Fossvogs og Hringbrautar. Sjúklingarnir þurfa ekki að vera í einangrun á meðan þar sem litið er svo á að þetta sé skimun einkennalausra. Ef sýni er tekið vegna einkenna skal sjúklingur vera í einangrun þar til niðurstaða liggur fyrir.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu frá viðbragðsstjórn og farsóttanefnd Landspítalans. 

Áfram er verið að skima meðal starfsfólks á Landakoti og víðar vegna hópsýkingarinnar á Landakoti. Þjónusta við deildina hefur verið aukin en starfsfólk hefur meðal annars átt erfitt með að nálgast mat í matarhléum.

Nú er 51 sjúklingur á Landspítala með COVID-19, þar af er einn á gjörgæsludeild og er hann í öndunarvél. 40 starfsmenn spítalans eru í einangrun og 322 í sóttkví.

Viðbragðsstjórn og farsóttanefnd spítalans segir starfsfólkið vinna sína vinnu við erfiðar og krefjandi aðstæður og fyrir það beri að þakka. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV