Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Rökuðu hárið af manni en sýknuð því brotið var fyrnt

27.10.2020 - 19:02
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Hákon Halldórsson - RÚV
Héraðsdómur Suðurlands sýknaði í dag fimm manna hóp sem var ákærður fyrir að ryðjast inn á heimili manns og halda honum niðri á meðan einn úr hópnum rakaði af honum hárið og framan af augabrúnum með rafmagnsknúnum hrossaklippum og rafmagnsrakvél.. Dómurinn taldi brotið vera fyrnt þar sem það var framið fyrir fjórum árum og ákæra ekki gefin út fyrr en í fyrra.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að upptökin hafi mátt rekja til þess að hópurinn taldi manninn hafa brotið gegn vinkonu þeirra.  

Maðurinn greindi frá því fyrir dómi að aðdragandinn hefði verið sá að hann hefði eytt nótt með 18 ára stúlku og það hefði lagst illa í vinkonu hennar og samstarfskonur.  

Nokkrum dögum síðar hefði verið hringt í hann og hann beðinn um að hafa sig á brott þar sem hann væri ekki lengur velkominn. Í því samtali hafi hann játað að hafa verið með stúlkunni en allt hafi verið í góðu milli hans og hennar og þetta hafi verið með samþykki þeirra beggja. 

Hálfum mánuði seinna hafi þrír samstarfsmenn hans gengið út og sagt að þeir ætluðu ekki að vinna fyrir hann vegna málsins.

Um nóttina hafi umræddur hópur veist að honum með rafmagnsknúnum hrossaklippum og rafmagnsrakvél. Í fyrstu hefði hann ætlað að verja sig en fljótlega áttað sig á því að hann fengi ekkert við þau ráðið. Þau hafi dregið hann fram á gólf og byrjað að raka af honum hárið, slá hann og klípa. 

Maðurinn taldi að allir fimm sakborningarnir hefðu verið þarna að verki auk þriggja annarra sem voru á vettvangi. Hann hefði verið mjög hræddur og ekki átt möguleika á því að flýja.

Allir sakborningarnir nema einn gáfu skýrslu í gegnum fjarfundabúnað og neituðu sök. 

Héraðsdómur segir að telja verði sannað að minnst fjórir úr þessum fimm manna hópi hafi ruðst inn á heimili mannsins. Og að eftir þessa heimsókn hafi hárið verið rakað af manninum þar sem engum öðrum en þeim sé til dreifa sem hafi þar getað átt hlut að máli.  Aftur á móti fyrnist það hegningarlagabrot sem þau séu sakfelld fyrir á tveimur árum og því sé ekki annað hægt en að sýkna þau. 

Þá taldi dómurinn ósannað að hópurinn hefði beitt manninn kynferðislegu ofbeldi með því að beina rakvélinni að endaþarmsopi hans.  Voru þau því einnig sýknuð af þeim ákærulið. 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV