Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ráðuneytið staðfestir stöðvun heimaeldis

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV/Landinn
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur staðfest ákvörðun Matvælastofnunar um að stöðva starfsemi fiskeldis sem var rekið án rekstrarleyfis.

Matvælastofnun gaf Bjarna Óskarssyni á Völlum í Svarfaðardal þann kost að borga rekstrarleyfi vegna bleikjueldis á landi sínu eða slátra fisknum. Þetta gagnrýndi Bjarni harðlega. Það sé galið að geta ekki átt bleikjur í eigin læk án þess að ríkið komi að því og kærði ákvörðun Matvælastofnunar til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðsins. 

Ráðuneytið hefur nú staðfest ákvörðun Matvælastofnunar. Þetta kemur fram á vef Matvælastofnunar. Ráðuneytið segir óumdeilt að fiskeldi sé rekið á staðnum miðað við skilgreiningu laganna. Þá hafnar það því að Matvælastofnun hefði við meðferð málsins brotið rannsóknarreglu, meðalhófsreglu og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga eins og kærendur héldu fram. Matvælastofnun ætti að stöðva fiskeldi sem væri rekið án rekstrarleyfis og var ákvörðunin því staðfest.

Í úrskurðinum segir að með fiskeldi sé átt við geymslu, gæslu og fóðrun vatnafiska, hvort sem það sé í söltu eða ósöltuðu vatni. Starfsemin teljist því sem fiskeldi samkvæmt lögunum. Hvergi sé talað um að minniháttar fiskeldi eða heimaeldi til heimanotkunar sé undanskilið leyfisskyldu.