Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Listin og lífið getur ekki farið á endalausan frest

Mynd: RÚV / Menningin

Listin og lífið getur ekki farið á endalausan frest

27.10.2020 - 14:33

Höfundar

Hljómsveitin Mammút sendi frá sér nýja breiðskífu á dögunum sem nefnist Ride the Fire. Platan átti að koma út í vor en hljómsveitinni fannst ekki tækt að fresta útgáfu lengur. Lífið þurfi að halda áfram þrárt fyrir allt.

Þetta er fimmta plata Mammút en sú á undan, Kinder Version, kom út 2017. Þær Katrína Mogensen söngkona og Ása Dýradóttir bassaleikari segja hljómsveitina vera á rólegri slóðum á þessari plötu. „Kinder Version var hálfgert tilfinningahryðjuverk. Við þurftum að lenda á aðeins rólegri stað. Bæði vinnslan og lagasmíðarnar eru miklu yfirvegaðri.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Menningin

Platan var tekin upp bæði á Íslandi og í London og oft voru hljómsveitarmeðlimir í sitt hvoru landinu. „Við vorum svo rosalega heppin og dekruð; vorum bæði með Loftbrúarstyrk og svo fengum við líka úthlutað úr tónskálda og flytjendasjóði listamannalauna, sem hjálpaði okkur mikið. Þetta var eins og draumur. Að einhverju leyti er þessi plata líka einstaklingsmiðaðri en hinar, við sem einstaklingar fengum að hlúa að og bera ábyrgð á hverju lagi.“

Platan var tilbúin fyrir síðustu áramót og átti að koma út í vor en þá setti Covid strik í reikninginn. „Við seinkuðum útgáfunni fram á haust og ætluðum að taka túr í næsta febrúar. Við þurftum að fresta túrnum en ákváðum að halda okkur við útgáfuna, því það er ekki hægt að stoppa allt. Lífið og listin verður að halda áfram, það getur ekki allt farið á frest.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Menningin

Þær segja ekki ljóst hvernig plötunni verði fylgt eftir, streymisútsendingar hafi þegar gengið sér til húðar. „Við snúumst um desíbel og „live“ tónleika, fá bassann í brjóstkassann og illt í eyrun.  Ef þú tekur þetta burt frá tónlistarmönnum eða sviðslistarfólki, að vera í samtali við áhorfendur, þá er greinin fallin.“ 

Rætt var við Mammút í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Nýtt frá Jónsa og Robyn, Draumförum og Króla og Mammút

Tónlist

Mammút með flestar tilnefningar

Popptónlist

Mammút með blíðari útgáfur af óblíðum hlutum

Tónlist

Tunglið svíkur ekki Mammút