Héldu upp á 102 ára afmæli Unnar í gegnum glugga

27.10.2020 - 15:45
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Unnur Jónsdóttir, íbúi á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri, hélt í dag upp á 102 ára afmæli í faðmi vina og fjölskyldu. Aðstandendur Unnar létu heimsóknarreglur hjúkrunarheimila ekki aftra sér frá að slá upp veislu fyrir hana.

Hlustaði á Hauk Morthens í tilefni dagsins

Veislan var rétt að hefjast þegar fréttastofu bar að garði í dag. Þá höfðu þær stöllur, Elsa Friðrika Eðvarðsdóttir, Unnur Huld, Birna Möller og Berglind Túliníus dekkað borð með veglegum veitingum fyrir utan gluggann hjá Unni sem fæddist árið 1918. Innan við gluggann sat svo afmælisbarnið og hlustaði á Hauk Morthens í tilefni afmælisins.

„Erum vanar að fagna þessari dásamlegu konu“

Auk þeirra voru fjölmargir ættingjar og vinir Unnar með í veislunni í gegnum fjarfundarbúnað. „Við reynum bara að sníða okkur stakk eftir vexti og gera gott úr stöðunni. Við erum vanar að fagna þessari dásamlegu konu á hverju ári með veislu en í ár er þetta svolítið óhefðbundið. Starfsfólkið á Hlíð hjálpaði okkur við að dekka upp borð og koma þessu í kring sem er bara dásamlegt,“ sagði Unnur Huld. 

Mynd með færslu
Unnur er fædd árið 1918