Finnar sigursælir á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Finnar sigursælir á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs

27.10.2020 - 21:17

Höfundar

Verðlaun Norðurlandaráðs voru afhent í sérstökum sjónvarpsþætti sem sendur var út í öllum norrænu löndunum. Finnar hlutu þar þrenn verðlaun, Norðmenn ein og Færeyingar ein.

Til stóð að verðlaunahátíðin færi fram á Íslandi í þetta sinn, að viðstöddu fjölmenni eins og vant er, en vegna heimsfaraldursins fór hún fram með stafrænum hætti.

Norðurlandaráð veitir ár hvert fimm verðlaun til þess að vekja athygli á bókmenntum, tungumáli, tónlist og kvikmyndum Norðurlanda ásamt nýskapandi aðgerðum á sviði umhverfismála.

Barna- og unglingabókmenntaverðlaunin hljóta höfundarnir Jens Mattsson og Jenny Lucander fyrir bókina Vi är lajon, en bókin var framlag Finna til verðlaunanna í ár. Í umsögn dómnefndar segir að Vi är lajon sé sannkölluð barnabók þar sem vinkill barnsins sé áberandi, bæði í texta og myndum.

Mynd: RÚV / RÚV
Jenny Lucander og Jens Mattsson.

„Leikurinn hefur græðandi áhrif þegar það allra versta gerist, þegar lítið barn fær banvænan sjúkdóm,“ segir enn fremur í umsögninni. „Sléttur ævintýraleiksins eru lifandi, appelsínugular á litinn og þrengja sér inn í blóðlausan sjúkrahússheiminn. Villtur leikurinn rúmar alla þá sorg og áhyggjur sem sjúkdómurinn veldur. Myndvinkillinn, skreytingarnar og litirnir vinna á sannfærandi hátt með norrænni myndabókarhefðinni að hætti Ingrid Vang Nyman og Tove Jansson, en hafa sinn eigin, óvænta frumleika hvað varðar vinkla, teikningar, litaval og persónusköpun. Textinn er í stílhreinu samhengi við fyrstu persónu frásögnina sem litast af umfangi leiksins. Lýsingar á umhyggju og örvæntingu foreldranna eru hvort tveggja í senn, sársaukafyllstar og blíðastar. Bróðurástin og kjarkmikill endir bókarinnar gefa í skyn að til sé nýtt Nangijala. Bókin er mjög grípandi og afrakstur fyrirtaks norrænnar samvinnu og á erindi við lesendur á öllum aldri.“

Jens-Kjeld Jensen hlýtur umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs, var hann tilnefndur fyrir hönd Færeyja. Í umsögn dómnefndar segir að Jens-Kjeld hafi safnað vitneskju og lýst öllu frá flóm, músum og fuglum yfir í steingervinga, sveppi og runna í meira en 40 ár.

Mynd: RÚV / RÚV
Jens-Kjeld Jensen hlýtur umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.

„Hann er sjálfmenntaður vísindamaður og fræðari og hefur með bókum, fyrirlestrum og hundruðum vísindalegra greina og aðgengilegra vísindagreina frætt bæði börn og fullorðna um ríkidæmi náttúrunnar. Og þegar þörf hefur krafið, varað við ógninni sem stafar meðal annars af ágengum tegundum,“ segir þar enn fremur. „Framlag hans til skilnings og varðveislu fjölbreytileikans í færeyskri náttúru er ómetanlegt og hann er fyrirmynd og dæmi þess hverju eldhugar geta áorkað og gert fyrir auðugri náttúru og framtíð okkar allra.“

Tónlistarverðlaun hlýtur finnska tónskáldið Sampo Haapamäki fyrir verkið „Konsertto neljäsosasävelaskelpianolle ja kamariorkesterille“. Í umsögn dómnefndar segir að það sé einstakur bræðingur meðfæddrar tónlistargáfu, færni og óþreytandi rannsóknar á hinu hefðbundna.

Mynd: RÚV / RÚV
Sampo Haapamäki.

„Það kemur hlustandanum á óvart með líflegu, framúrstefnulegu en þó sérkennilega kunnuglegu tónmáli og heldur athygli hlustandans frá fyrstu stundu allt til enda, með snilldarlegri túlkun smáatriða. Tónskáldið hefur skapað sér eigin, auðheyrðu rödd, rödd sem ráðið veitir þessi verðlaun með ánægju.“

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs hlýtur norska kvikmyndin Barn eftir Dag Johan Haugerud og Yngve Sæther. Í umsögn dómnefndar segir að myndin fjalli um það þegar Þrettán ára barn lætur lífið á skólalóðinni eftir samstuð við skólafélaga.

Mynd: RÚV / RÚV
Dag Johan Haugerud og Yngve Sæther.

„Þessi atburður kallar fram nýjar vangaveltur og togstreitu hjá þeim fullorðnu sem næst börnunum standa og skapa grunninn að þessari metnaðarfullu og íhugulu mynd,“ segir þar enn fremur. „Leikstjórinn meðhöndlar samband barna og fullorðinna af mikilli samhygð og alvöru og lýsir flóknum persónum og aðstæðum í mynd sem víða kemur við og er líka lýsing á Noregi nútímans. Hann er einstakur kvikmyndagerðarmaður og hefur eigin sýn á heiminn og einkar gott eyra fyrir samtölum. Hann á í góðu samstarfi við flesta helstu kvikmyndaleikara Noregs og í þessari sigurmynd ársins draga þau það besta hvert fram í öðru. Þetta er framúrskarandi mynd um það sem máli skiptir í lífinu.“

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hlýtur finnski rithöfundurinn Monika Fagerholm fyrir bókina Vem dödade bambi? Í umsögn dómnefndar segir að bókin kraumi af orku og hófstilltum siðferðisboðskap.

Mynd: RÚV / RÚV
Monika Fagerholm.

„Hópur unglinga af góðum ættum fremur hópnauðgun í úthverfi utan við Helsingfors. Höfundurinn einblínir ekki sérstaklega á fórnarlambið, heldur hina seku, það sem á undan er gengið og atburðarásina sem fylgir í kjölfar nauðgunarinnar. Einkum eru það tilraunir foreldranna til að sópa yfir atburðinn eftir á sem gefa færi á framúrskarandi og nákvæmri samfélagssatíru. Málið fær að njóta sín, ýmist kraftmikið eða harmrænt og biðjandi. Í þéttum samtalsvef bókarinnar, svörum og tilvísunum í poppmenningu má finna kaldan sannleik sem hittir persónurnar fyrir þótt þær verji sig með öllum ráðum. Gusten Grippe, eini gerandinn sem játar sök, skapar mótvægi við myrkrið á vettvangi nauðgunarinnar. Við sjáum löngun eftir hinu ósnortna, lífsnauðsynlega þrá sem lýst er í formi minninga um ást og vináttu sem er í þversögn við yfirborðslegan samtíma undirlagðan af metnaðarsækni, þrá eftir því að snúa til baka og sækja kraft í einfaldleikann.“

Frekari upplýsingar um verðlaunin og tilnefningarnar má finna á vef Norðurlandaráðs.

Tengdar fréttir

Tónlist

Of Monsters and Men á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs

Klassísk tónlist

Heimilistónar Víkings á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs

Menningarefni

Verðlaunaafhending Norðurlandaráðs