Eigandinn fær mánuð til að rífa húsið

27.10.2020 - 20:42
Mynd: RÚV / RÚV
Eiganda hússins við Bræðraborgarstíg 1 sem brann í sumar verður gert að rífa það innan þrjátíu daga eða gera Reykjavíkurborg grein fyrir því af hverju það sé ekki hægt. Byggingafulltrúi borgarinnar segir óboðlegt að húsið standi enn og að það geti fokið í næstu lægð.

Íbúaráð Vesturbæjar hefur óskað eftir því að rústir hússins verði fjarlægðar sem fyrst þar sem þeir telja hættu stafa af þeim. Skúli Sveinsson, lögmaður eiganda hússins, sagði aftur á móti í samtali við fréttastofu í dag að það sé ekki hægt að rífa húsið þar sem það sé uppi ágreiningur milli eigandans og tryggingafélagsins um hvort húsið sé ónýtt eða ekki.

Nikulás Úlfar Másson, byggingafulltrúi Reykjavíkurborgar, segir ágreininginn ekki tengjast borginni. „Okkar skylda er að tryggja það að byggingar séu ekki hættulegar sínu umhverfi, geti skaðað eða hreinlega valdið heilsubresti hjá vegfarendum og þeim sem eiga heima í nágrenninu,“ segir hann.

„Við höfum fylgst með vettvangi, með þessu neti sem er um húsið og girðingunni, og þetta er allt búið að vera til fyrirmyndar hingað til en nú er náttúrulega von á hinu ýmsa veðri sem gæti hreinlega fellt þetta hús. Við vitum ekkert hvernig ástand þess er í raun og veru. Við höfum ekki getað verið í viðræðum við eigendur vegna niðurrifs eða hreinsunar þar sem þetta er búið að vera rannsóknarvettvangur,“ segir Nikulás.

„Nú er komið að því að við sendum eigandanum bréf og gerum honum það að rífa húsið innan þrjátíu daga eða koma með skýringar hvað hann hyggst gera við þessa rúst og áform með þessa líð til framtíðar,“ segir hann.