Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Við þurfum að breyta væntingum okkar til hamingjunnar

26.10.2020 - 11:37
Mynd: RÚV / RÚV
Lífið er í eðli sínu erfitt og við verðum að gangast við því. Við höfum hins vegar alltaf val um það hvað við gerum, alveg sama hvernig okkur líður. Hvort við komum fram af umhyggju, heiðarleika og einlægni, og ef við lifum í samræmi við þau gildi þá líður okkur alveg bærilega þegar við leggjumst á koddann á kvöldin. Þetta segir Rúnar Helgi Andrason sálfræðingur.

Rúnar Helgi var gestur á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun þar sem hann ræddi um andlega heilsu, ekki síst í því ástandi sem nú ríkir.  

„Það er alltaf verið að selja okkur hamingjuna, það er nóg að horfa á fjölmiðla, samfélagsmiðla. Það eiga allir að vera hamingjusamir og ef þú ert ekki hamingjusamur þá er eitthvað stórkostlegt að þér. Það er svo mikil tálsýn vegna þess að þá ertu alltaf vansæll. Þú nærð aldrei þessum áfanga að vera alltaf hamingjusamur,“ segir Rúnar Helgi.  

„Og hamingjan, hún er ekki endastöð heldur er þetta ferðalag og við þurfum að njóta þess. Líka bara að gera ráð fyrir því að lífið í eðli sínu er bara erfitt. Við verðum að gangast við því að lífið er erfitt og alls konar ströggl og verkefni sem við þurfum að takast á við.“ 

Rúnar sagðist ekki telja að kórónuveiruástandið komi til með að hafa stórvægileg áhrif á andlega heilsu fólks almennt. Hann vísaði meðal annars í niðurstöður rannsókna frá Landlæknisembættinu sem benda til þess að fólki hafi liðið almennt betur í samkomutakmörkunum í vor. Fólk fór að vera meira heima hjá sér, fór að vera meðvitað um sjálft sig  og ekki síður meðvitað um nauðsyn þess að vera í tengslum við sína nánustu og veita öðrum stuðning. 

„Við nálguðumst meira þessi mannlegu gildi sem ég held að við sem samfélag þurfum svolítið að horfa meira í og draga lærdóm af. Ég held að við höfum verið komin fjarri mannlegum gildum, í kapphlaupi við aurinn.“ Kórónuveirufaraldurinn þvingaði okkur til að horfast í augu við grunngildin, það sem skipti raunverulega máli. 

Þurfum að huga að viðkvæmum hópum 

Þrátt fyrir að ástandið komi ekki til með að hafa langvarandi áhrif heilt yfir segir Rúnar Helgi ástandið töluvert þyngra núna en það var í vor, og það komi illa niður á ákveðnum hópum. Það séu ekki síst einstaklingar sem hafi misst vinnuna, þjáist af skammdegisþuglyndi, fólk með geðræn vandamál og börn og unglingar.  

„Afleiðingarnar eru farnar að bíta meira í. Sérstaklega held ég að efnahagslegu áhrifin séu farin að særa fólk verulega mikið, þeir sem eru búnir að missa atvinnuna sína og sjá ekkert fram úr því að borga sína reikninga, hvernig ástandið verður og hvenær þeir munu koma sér upp úr þessu.“

Þessu ástandi líkir Rúnar Helgi við storm. „Það er ekkert bara leiðinlegt veður, það er bara stormur í lífi þessara einstaklinga og það er ekkert séð fyrir endann á honum.“ Erfitt sé að ráðleggja fólki í þessari stöðu, en einhvern veginn verði samt að fara í gegnum storminn og seilast eftir trúnni á að þetta muni lagast. 

Fólk verði að viðurkenna vanmátt sinn fyrir aðstæðunum, gagnvart eigin tilfinningum, hugsunum og ástandi. Sterka þörfin sem við öll höfum fyrir stjórnun verði að ríkja, það þýði ekki að eyða öllum kraftinum í að reyna að stjórna einhverju sem ekki er hægt að hafa stjórn á. „Það verður að gefa þetta frá sér, það sem ekki fæst breytt. Læra að bera kennsl á sínar eigin hugsanir og horfa á þær en ekki frá þeim.“ Þá borgi sig að einbeita sér að eigin hegðun, því sem fólk geti sjálft haft áhrif á.  

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Helgi Andrason
Rúnar Helgi Andrason
thorunneb's picture
Þórunn Elísabet Bogadóttir
dagskrárgerðarmaður