Telur Nóbelsverðlaun þurfa róttækra breytinga við

Frá tilkynningu Nóbelsverðlauna í bókmenntum 2019. - Mynd: EPA / EPA

Telur Nóbelsverðlaun þurfa róttækra breytinga við

26.10.2020 - 09:20

Höfundar

Nóbelsverðlaun í bókmenntum hafa staðið á krossgötum frá 2017 eftir hneykslismál og grunsemdir um spillingu. Í ár hafa sumir jafnvel kallað eftir því að Louise Glück, handhafi Nóbelsverðlaunanna 2020, taki ekki við verðlaununum í desember. Óvíst er hvort akademían endurheimtir traustið sem hún naut áður.

Það varð uppi fótur og fit þegar Sara Danius, ritari sænsku Nóbelsakademíunnar, tilkynnti að handhafi Nóbelsverðlaunanna í bókmenntum árið 2016 væri bandaríska söngvaskáldið og tónlistargoðið Bob Dylan. Miðað við viðbrögðin sem við heyrðum hér var það saga til næsta bæjar. Mörgum þótti þetta djörf ákvörðun sænsku akademíunnar, enda langt út fyrir þann hefðbundna þægindaramma sem hún hafði unnið innan um árabil. Það heyrðust raddir um að akademían hefði með þessu misstigið sig og valið skáld í vitlausri deild. Bob Dylan er auðvitað margverðlaunaður á vettvangi tónlistarinnar og löngu búinn að festa sig í sessi sem einn áhrifamesti tónlistamaður sögunnar. Af hverju ætti í ofanálag að veita slíkum manni virtustu bókmenntaverðlaun í heimi, spurðu margir sig. Dylan var þar að auki sjálfur gagnrýndur fyrir svifasein viðbrögð við tilkynningunni og hann var sagður lítilsvirða Nóbelsverðlaunin með því að mæta ekki í eigin persónu til að taka við þeim heldur senda Patti Smith í sinn stað. Á þessu var þó einföld skýring. Ekki náðist í Dylan enda beið hann ekki við símann eins og fjöldi merkra rithöfunda gerir á þessum tíma árs og hann mætti ekki á athöfnina því hann var upptekinn. 

epa05583463 Permanent Secretary of the Swedish Academy, Sara Danius (L) announces that US singer-songwriter Bob Dylan won the 2016 Nobel Prize in Literature during a press conference at the Old Stockholm Stock Exchange Building, in Stockholm, Sweden, 13
 Mynd: EPA
Sara Danius tilkynnir að Bob Dylan hafi hlotið Nóbelsverðlaunin 2016.

Helsta áhersla Söru Danius sem ritara, fyrsta kvenkyns ritara akademíunnar, var að nútímavæða Nóbelsverðlaunin, dusta örlítið rykið af þeim og kalla eftir auknu gagnsæi í störfum akademíunnar. Sara lést 2019, 57 ára að aldri, eftir langa baráttu við brjóstakrabbamein en á þeim árum sem hún sat í akademíunni markaði hún djúp spor í starf hennar og var í auga stormsins sem geisað hefur um bókmenntaverðlaunin síðustu þrjú ár eða svo og sér varla fyrir endann á. Verðlaunin hafa staðið á krossgötum eftir hneykslismál og spillingu sem betur verður vikið að hér á eftir. Val akademíunnar árið 2019 vakti líka hneykslan margra og einhverjir hafa jafnvel kallað eftir því að Louise Glück, handhafi Nóbelsverðlaunanna í ár, taki ekki við verðlaununum í desember. 

Spilling í akademíunni

Nóbelsverðlaunin í bókmenntum hafa verið veitt 113 sinnum. 117 höfundar hafa tekið við þessum virtu verðlaunum frá árinu 1901 til dagsins í dag. Það eru ekki margar eyður í sögu verðlaunanna, þau hafa verið veitt á hverju ári nema í nokkur skipti og það vegna heimsstyrjalda. 

Þegar Bob Dylan var valinn var það sannarlega ekki í fyrsta sinn sem val akademíunnar vakti úlfúð og undrun meðal forkólfa í bókmenntaheiminum. Dæmi eru um umdeilt val og minniháttar hneykslismál. Bókmenntaverðlaun heimsins eru fjölmörg og ólík og í eðli sínu ekki laus við deilur. Allar slíkar viðurkenningar eru byggðar á huglægu mati hverju sinni af manneskjum með smekk og skoðanir og þær geta byggt ákvarðanir sínar á geðþótta. Í þriðju og síðustu erfðaskrá Alfreds Nobels, sem undirrituð var 27. nóvember 1895 í húsakynnum sænsk/norska félagsins í París kemur fram hvernig haga eigi veitingu Nóbelsverðlauna. Um bókmenntaverðlaunin segir einfaldlega: sá sem hefur, á sviði bókmennta, skapað framúrskarandi bókmenntaverk með hugsjón að leiðarljósi.

Í áranna rás hafa Nóbelsverðlaun í bókmenntum verið tákn um traust og hlutleysi og nær óumdeildur dómstóll bókmennta á Vesturlöndum og víðar. Það er nánast eins og helgistund þegar ritari nefndarinnar stígur fram fyrir hvítar og gylltar dyr og tilkynnir um verðlaunahafann og heimurinn bíður með öndina í hálsinum. Sænska akademían samanstendur af 18 félögum sem eru kjörnir ævilangt samkvæmt gömlu reglunum og þeir velja sjálfir arftaka sína að þeim látnum. Áður gátu þeir ekki beinlínis sagt af sér heldur einungis hætt að mæta á fundi. 

Hneykslismál, þöggun og óvissa 

Síðustu þrjú ár hefur þessi heilagleiki og traust sænsku akademíunnar beðið alvarlegan hnekki. Sú langa og flókna atburðarás síðustu þriggja ára hefur verið rakin oft og vel, meðal annars hér á þessum vettvangi, en í stuttu máli eru vandræðin til komin vegna viðbragða og viðbragðsleysis við ásökunum á hendur Jean-Claude Arnault, eiginmanni Katarinu Frostenson fyrrum félaga í akademíunni. Í #metoo-hreyfingunni í árslok 2017 sökuðu 18 konur Arnault um gróft kynferðislegt ofbeldi og áreitni. Dagblaðið Dagens Nyheter birti viðtöl við 18 konur sem stigu fram og lýstu kynferðislegri áreitni Arnaults. Hann hefði áreitt þær og beitt þær ofbeldi um árabil.

Arnault var sakaður um að hafa ítrekað lekið upplýsingum um handhafa Nóbelsverðlaunanna áður en nöfn þeirra voru formlega tilkynnt. Arnault og eiginkonu hans Katarinu Frostenson var gefið að sök að hafa misnotað fé og eignir akademíunnar enda miklir peningar í umferð í kringum akademíuna. Hún sér ekki bara um að veita Nóbelsverðlaunin heldur styrkir hún ýmsa menningarstarfsemi. Arnault neitaði allri sök en sagði af sér. Frostenson varði eiginmann sinn fram í rauðan dauðann og gerir enn þó að Arnault hafi á endanum hlotið rúmlega tveggja og hálfs árs dóm fyrir tvær nauðganir. Fyrir um ári skrifaði Matilde Gustavsson bókina Klubben þar sem hún fer rækilega í saumana á þessum málum.

epa07060959 (FILE) - Frenchman Jean-Claude Arnault (L) arrives for the last day of hearings in his trial for rape and sexual assault at the Stockholm district court in Stockholm, Sweden, 24 September 2018 (reissued 01 October 2018).The court on 01 October
 Mynd: RÚV - EPA
Jean-Claude Arnault í réttarsal árið 2018.

Vandræðunum lauk ekki þarna. Augu heimsins fylgdust grannt með hverju skrefi akademíunnar og ákveðið var að veita ekki bókmenntaverðlaunin 2018 til þess að reyna að lægja öldurnar. Nóbelsstofnunin gerði miklar breytingar á því hvernig verðlaunahafar eru valdir. Sett var á fót sérstök nefnd sem velur verðlaunahöfundana með akademíunni og þannig hefur það verið síðustu tvö ár þótt óvíst sé hver næstu skref verða. 

Tvenn verðlaun voru veitt 2019 með þessari nýju valnefnd. Fyrir árin 2018 og 2019. Þá var komin mikil pressa á að velja höfund sem ruggaði ekki bátnum eða ylli óþarfa uppnámi. Þau sem hlutu verðlaunin þá voru Olga Tokarczuk frá Póllandi og Peter Handke frá Austurríki. Það reyndist ekki óumdeilt val. Bæði vegna þess að verðlaunahafarnir eru bæði hvítir Evrópubúar en líka að nafn Handke á skjalinu stuðaði marga. Hann hefur löngum verið sakaður um að bera blak af stríðsglæpum Serba í Kósóvóstríðinu. Þetta umdeilda val gefur vísbendingu um að þar hafi Horace Engdahl haft hvað mest um valið að segja. Engdahl var skipaður í akademíuna 1997 og tilheyrir eldri og íhaldssamari armi hennar. Hann úthúðaði þeim sem viku sæti eftir að ásakanir á hendur Arnault voru birtar og hélt uppi vörnum fyrir hann þar að auki.

Mynd með færslu
 Mynd:
Horace Engdahl var vonarstjarna sænsku akademíunnar.

Á Glück að hafna verðlaununum?

Nóbelsverðlaunum í bókmenntum hefur tvisvar verið hafnað. Í fyrra skiptið var það rússneska skáldið Boris Pasternak sem sovésk stjórnvöld neyddu til að hafna árið 1958. Honum var tilkynnt að ef hann færi til Svíþjóðar og tæki við verðlaununum, ætti hann einfaldlega ekki afturkvæmt til Sovétríkjanna.

Franski heimspekingurinn og rithöfundurinn Jean-Paul Sartre var annar til að hafna Nóbelsverðlaununum í bókmenntum og sá fyrsti sem gerði það sjálfviljugur. Hann hlaut verðlaunin 1964 en sagðist vera á móti formlegum viðurkenningum, þær stofnanavæddu höfunda og drægju úr þeim þróttinn til að skrifa. Sartre segir þarna að verðlaunin séu leið hinnar borgaralegu elítu til þess að hylma yfir pólitíska virkni spekingsins á árum áður og slétta úr róttækni hans. Sú saga gengur að Sartre hafi gengið á eftir verðlaunafénu.

Í augum flestra eru Nóbelsverðlaun þó heiður og þeir sem hljóta þau taka þeim fagnandi. Nóbelsverðlaunahafinn í ár, bandaríska ljóðskáldið Louise Glück, er þar á meðal. Hún er sextánda konan sem hlýtur þessi verðlaun og valið á henni hefur ekki ýft neinar öldur, hún er gott skáld og vel að verðlaununum komin. Bandaríski blaðamaðurinn Peter Maass hefur aftur á móti kallað eftir því að Glück hafni verðlaununum vegna hneykslismála síðustu ára. Hann vill að gerðar verði róttækar breytingar á akademíunni til þess að hún endurheimti það traust sem hún hefur áður notið. Ógjörningur að spá fyrir um hvort það verður gert og hvort Nóbelsverðlaunin ná sér á strik aftur en það veltur á næstu skrefum akademíunnar.

Rætt var við Tinnu Ásgeirsdóttur og Pál Valsson um stöðu bókmenntaverðlaunanna í Heimskviðum. Hægt er að hlusta á umfjöllunina í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

Fréttin hefur verið leiðrétt. Jean-Claude Arnault átti ekki sæti í akademíunni heldur aðeins giftur Katarinu Frostenson sem átti sæti. Þó er gjarnan talað um þau saman sem áhrifavalda innan akademíunnar í umfjöllun um þessi mál. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Louise Glück fær Nóbelsverðlaunin í bókmenntum

Bókmenntir

Bókmenntaverðlaun Nóbels veitt eftir röð hneykslismála

Bókmenntir

Nóbelsverðlaun vekja undrun og reiði