Noregur gæti þurft að gefa frá sér EM

Mynd með færslu
 Mynd:

Noregur gæti þurft að gefa frá sér EM

26.10.2020 - 21:16
Noregur gæti endað á því að þurfa að gefa frá sér keppnishald á EM kvenna í handbolta sem hefst í byrjun desember. Þetta segir formaður norska handknattleikssambandsins í dag. Noregur er með strangar sóttvarnarreglur á mótinu.

Mótið á að fara fram í Danmörku og Noregi en það hefst í byrjun desember. Norska sambandið og evrópska handknattleikssambandið þurfa á næstu tveimur vikum að taka ákvörðun um hvort stætt sé á því að halda hluta mótsins í Noregi.

Málinu voru gerð góð skil hér á RÚV um helgina en það snýst um harðar reglur í Noregi, harðari en t.d. í Danmörku meðan móti stendur. Í Noregi verður málum þannig háttað að smitist einn leikmaður meðan á móti stendur þá verður allt liðið sent heim, auk mótherjanna sem leika á móti liðinu í þessum tiltekna leik. Sem myndi þýða að eitt smit hjá varamanni pólska liðsins sendir Pólland og mótherja Póllands í síðasta leik úr keppni.

Í Danmörku er öldin önnur, þar verður smitaður leikmaður aðeins sendur í einangrun en liðið getur haldið áfram þátttöku í mótinu. 200 áhorfendur verða leyfðir á leikjum mótsins í Noregi en 500 áhorfendur í Danmörku.

„Það gengur eiginlega ekki upp að það séu tvennskonar reglur í gildi á móti eins og Evrópumeistaramóti," sagði Per Bertelsen, framkvæmdastjóri danska handknattleikssambandsins í samtali við TV2 um helgina.

Nú er til skoðunar hjá EHF hvort mótið geti yfir höfuð farið fram í Noregi. Rætt hefur verið að færa mótið þaðan og á stað þar sem reglur bjóða upp á meira svigrúm, líkt og í Danmörku.

„Já það getur verið að við segjum okkur frá því að halda mótið. Við þurfum að sætta okkur við stöðuna sem við erum í. Við erum vel skipulögð hér og vonum það besta, en að sama skapi gæti það farið svo að við getum hreinlega ekki haldið þetta,“ sagði Kåre Geir Lio framkvæmdastjóri norska handknattleikssambandsins í samtali við VG

Hann segir jafnframt að stjórn EHF hafi brugðið þegar þau fréttu af ströngum reglum Norðmanna og að þau hafi hugsað sér öðruvísi mót. Hver svo sem ákvörðunin um afdrif mótsins verða þá verður hún tekin í samráði við EHF.