Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Geta kært fyrirmæli um sóttkví til heilbrigðisráðherra

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - Kveikur
Þeir sem þurfa að velja milli þess að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins eða sýnatöku með sóttkví á milli geta kært þá ákvörðun til heilbrigðisráðuneytisins Umboðsmaður Alþingis hefur lokið við athugun sinni á kvörtun manns sem búsettur er hér á landi en þurfti að fara í heimasóttkví eftir vinnuferð til útlanda.

Umboðsmaður birti í dag álit sitt á kvörtunum sem honum hafa borist varðandi aðgerðir stjórnvalda  og viðbrögð í tengslum við kórónuveirufaraldurinn.

Kæruleiðir ekki skýrar en bætt úr því

Í álitinu kemur fram að maður sem er búsettur hér á landi hafi kvartað til embættisins eftir að hann var skikkaður í heimasóttkví.  

Umboðsmaður óskaði eftir afstöðu heilbrigðisráðuneytisins á því hvort maður í slíkri stöðu gæti kært fyrirmælin til ráðuneytisins.  Í svari ráðuneytisins kom fram að slík heimild væri fyrir hendi en misbrestur hefði verið á því að leiðbeina um slíkar kæruleiðir. 

Ráðuneytið hefði allt frá upphafi faraldursins beint því til embætti sóttvarnalæknis og landlæknis að leiðbeiningar sem beint er til þeirra sem sæta sóttvarnaráðstöfunum fælu í sér fullnægjandi upplýsingar um réttarstöðu þeirra, svo sem kæruleið til ráðherra. 

Nú væri búið að koma þessum málum í betra horf. Þeir sem væru skráðir í sóttkví fái nú leiðbeiningar þar sem komi skýrt fram að þeir geti kært þá ákvörðun til heilbrigðisráðherra. Sú kæra fresti þó ekki framkvæmdinni og viðkomandi verður því áfram í sóttkví.

Kvartað undan hertri grímuskyldu

Umboðsmaður segir að honum hafi einnig borist kvartanir eftir að skólameistarar hafi tekið upp strangari grímuskyldu í skóla en kveðið sé á um í reglugerð heilbrigðisráðuneytisins.  Á þetta hafi meðal annars reynt í máli einkarekins skóla.

Umboðsmaður beindi því til viðkomandi að þeir könnuðu fyrst hvort hægt væri að kæra slíka ákvörðun til mennta-og menningarmálaráðuneytisins og fengju síðan niðurstöðu úr því kærumáli áður en hann tæki afstöðu til máls þeirra. Ráðuneytið sagði í svari sínu til umboðsmanns að það myndi meta hverja og eina kvörtun sjálfstætt  og setja í viðeigandi farveg og telur embættið það sýna þörfina á að stjórnvöld fari skipulega yfir þessi mál.

Lagaþrætur megi ekki skemma fyrir

Umboðsmaður greinir á vef sínum einnig frá bréfi sem hann sendi forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra fyrir helgi. Hann hefur átt í samskiptum við ráðuneytin tvö síðan í ágúst.  Hann segir að þau samskipti hafi leitt í ljós að þörf væri á að skjóta styrkari lagastoðum undir og skýra betur heimildir stjórnvalda til sóttvarnaaðgerða og slíkt sé þegar í farvatninu.

Umboðsmaður segir í bréfi sínu að það séu almannahagsmunir að lög um sóttvarnaaðgerðir séu skýr. Lagaþrætur megi ekki koma í  veg fyrir þann árangur sem sóttvarnaaðgerðum er ætlað að ná til að hemja „bráðsmitandi sjúkdóm sem í senn getur reynst lífi fólks hættulegur og sett starfsemi heilbrigðiskerfisins úr skorðum,“ skrifar umboðsmaður.