Frumlegar ljóðabækur og skáldsaga um heilaæxli

Mynd: Steve King / .

Frumlegar ljóðabækur og skáldsaga um heilaæxli

26.10.2020 - 13:39

Höfundar

Sjálfstjórnarsvæði Norðurlandanna sem eru Álandseyjar, Samíska málsvæðið, Færeyjar og Grænland hafa öll rétt til að tilnefna eitt verk til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs en þurfa þess ekki. Í ár kjósa öll sjálfstjórnarsvæðin að tilnefna verk utan Grænland. Álandseyingar og samíska málsvæðið tilnefna ljóðabækur en Færeyingar hins vegar skáldsögu.

Álandseyingar tilnefna ljóðabókina När vändkrets läggs mot vändkrets (Þegar hvarfbaugar mætast). Höfundurinn Mikaela Nyman er búsett á Nýja Sjálandi og hefur þar í landi lengi birt ljóð og smásögur í blöðum og tímaritum en hún er menntuð í skapandi skrifum. Áður hafði hún lagt stund á Afríku - og Asíu fræði m.a.við Viktoriu háskólann í Wellington og háskólann í Qeensland. Í rannsóknum sínum hefur hún unnið að því að safnað sögum kvenna á Vanuato eyjum áður Nýju Suðurhafseyjum, eins og þær sjálfar segja þær og hún vinnur nú að útgáfu þessara sagna.

Eins og titill tilnefnda verksins Þegar hvarfbaugar mætast vitnar um er þar fjallað um mót menningarheima en bókin fjallar líka um persónulega sorg, systurmissi.

Ilmur af kókos

Ég borða því ég verð að gera það
til að hafa orku til að vera hjá þér

Krydda með timian til að fá kjark og styrk
tíni hvítþyrna fyrir hjartað

Treysti á töfra sítrónumelissunnar
gegn ástarsorg

Álandsrætur gegn lystarleysi og hósta,
maðk í magann, aniskaramellur
gegn sting og krampa.

Fylli vasana af fjólum
gljáandi blómblöð fyrir hugsanir þínar

kaupi gleymsku með rauðvíni, garðabrúður
og humalþéttu öli. Læt kókosfitu bráðna
í sárahrufur húðarinnar

Borða til að pillurnar
hafi eitthvað að blandast saman við

til að vera selskapleg, venjuleg

skapleg að minnsta kosti

vera í lagi a þangað til ég ilmandi af kókos
nálgast rúmið þitt rimlum girt

með allar þessar slöngur, poka
og pípandi tæki.

Hér rennur náttúra, landslag og afurðir Álandseyja saman við náttúru, landslag og afurðir hinum megin á hnettinum. Ljóð bókarinnar Þegar hvarfbaugar mætast eru margslungin. Hátæknihjúkrun fléttast saman við náttúruvernd, frumbyggjamenning við siðvenjur norðursins og bókmenntir úr ýmsum áttum kallast á og svo er það spurningin um trúna. Þetta eru persónuleg ljóð um persónulegan missi, um það að vera langt í burtu að heiman en samt heima, þar sem valið hefur verið að búa. Föðurafi Mikaelu Nyman var þekktur skáldsagnahöfundur á Álandseyjum og líka prestur og í ljóðinu „Steinflísar“ segir:

Ég óska að ég gæti talað við þig, afi,
spurt hvernig skuli finna trú
sem ekki er á sínum stað.  
Sjáðu, ekki hjálpaði það systur minni, hún
hafði hvort tveggja guð og heimastjórnina
með sér í liði.

Ljóðabókin Þegar hvarfbaugar mætast skiptist í tvo hluta Krabbamerkið heitir sá fá fyrri og Steingeitarmerkið sá síðari. Í fyrri hlutanum er systirin dauðvona í fyrirrúmi, sambandið við hana, minningar um liðnar samverustundir sem og sjúkdómurinn sem virðist vera lungnasjúkdómur. Í síðari hlutanum er systirin látin og ljóðamælandi syrgir langt í burtu. Það er hugsað heim sem einu sinni var og þar sem móðir þriggja barna dó, þrátt fyrir framúrskarandi greiningar, hjúkrun og aðhlynningu.

En það er líka hugsað um heiminn í þessum ljóðum, um blóm og jurtir, tré og steina, dýr, alls kyns lífverur því allt er hvað öðru háð. Þetta eru ekki baráttuljóð heldur öllu fremur ljóð sem opna augu þess sem les fyrir víðáttum heimsins. Heimurinn er svo stór og svo fjölbreytilegur þótt vitneskja okkar og tækni smætti hann gjarnan og einfaldi því að annars gætum við varla haldið áfram að lifa lífinu, lifað af. Hér er leikið með tungumálið sænskuna eða öllu heldur álenskuna og hún spegluð í tungumáli frumbyggja hinum megin á hnettinu.

Ljóðabókin Þegar hvarfbaugar mætast er merkileg bók. Þótt hér sé fyrsta bók höfundar á ferð er hér þroskað ljóðskáld á ferð.

Mynd: norden.org/Marek Sabogal / norden.org/Marek Sabogal

Bókin sem tilnefnd er af samíska málsvæðinu heitir Såle, sóli eða il í norsku útgáfunni þar sem höfundurinn Niillas Holmberg og Endre Ruset endurortu ljóðin. Kápa bókarinnar er úr frekar mjúkum dökkum pappír með óreglulegum hvítum spíralforma línum sem líða út fyrir kápuna bæði á bak – og framhliðinni. Einnig innsíður bókarinnar eru dökkar, gráar, og á mörgum þeirra getur aðeins að líta samskonar línur og prýða kápuna. Þessir hringir leiða hugann að hringrásinni sem náttúran og árstíðirnar opinbera aftur og aftur og ætti að vera tilfinnanlegri í lífi okkar mannfólksins. Inni á milli verður  liturinn á innsíðum bókarinnar ljósari og eru línurnar þá dökkar. Stundum minna þessar línur á útlínur fjalls, stundum á ár sem kvíslast og stundum á eldingar, en líka á fuglsleggi eða fuglaspor. Ljóð bókarinnar birtast svo neðarlega á síðunum oftast út við jaðar síðnanna ýmist með hvítum eða svörtum bókstöfum.

Það er samíska listakona Inga-Wiktoria Påve sem vinnur útlit bókarinnar sem endurspeglar og undirstrikar erendi ljóðabálksins Sole eða il sem mætti kalla nútímanáttúruljóð. Hér er  jörðin og fuglar, tré og himinninn yrkisefnið og auðvitað fætur og skó. Í raun er varla hægt að segja frá þessari bók, þetta er bók til að upplifa, það þarf að finna fyrir henni, snerta dökkar síðurnar, dökkar framtíðarhorfur viðfagnsefnisins sem er náttúran. Lýsandi hvítar línurnar vekja þó von.

Það þarf að finna fyrir fótunum, fótum sem snerta jörðin, merja stundum undir sé en vita af því. Í röksemdafærslu dómnefndar er sagt að ljóðin minni á pólitískan og ísmeygilegan jojksöng, og sannarlega er einhver joikhljómur í þessari bók og þar eru börn.

Er orðið of seint að ala upp barn
eða er of seint að spyrja?

Það hlýtur að vera eitt af þyngdarlögmálunum
að þau litlu verði að þekkja þau stóru til þess sjálf að stækka
og komast að raun um hvenær má klóra sér í höfðinu.

Mundu að fyrir þeim er eins og að við spyrjum
hvers vegna egg tísti ekki og steinar ekki lengur fljúgi

Bjarkirnar eru hálfnaktar
Fallin réttindi hylja landslagið
Trjágrein brestur undan stígvéli

Samt alast þau upp, börnin
með eyru lík laufblaði, barn
sem drekkur í sig málfræði úr líffræðinni.

Taktík bláklukkunnar:
Sannaðu að öll orð séu lýsingarorð
Það er hernaðaráætlun blómaengisins.

Einn af rauðu þráðunum í þessari gráu bók eru skórnir, myndhverfing þess sem ógnar. Skórnir loka inni fótinn, tærnar, hælana, iljarnar, hindra raunverulega tengingu við jörðina og það gera verslunarhættir með skó sömuleiðis.

Skórinn nagar, fóturinn leysist upp
og í góðri stöðu
er okkur sagt að stígvél hafi aldrei verið þægilegri.

Tínir iðnframleiðslan bláklukkur?
Samkvæmt skósmiðnum er það að fela tær
vörn bæði fyrir fótinn og blómaengið
Því það er hann sem hefur stúderað lífsins löngu stíga

Í hans túlkun veit gráðugur hællinn
hefur vitað í margar aldir
hvað honum er fyrir bestu.

Undir lok bókarinnar eru síðurnar í þessu fallega bókverki Ingu Wiktoriu Påve og Niillas Holmberg orðnar kolsvartar með hvítum svífandi línum . Á  þessum síðustu síðum verður Landið – skrifað með upphafsstöfum - aðalpersónan og því haldið fram ekki sé hægt að gera það spillt sem komi þó ekki í veg fyrir að það sé hægt að misnota það.

Líkt samíska ljóðskáldið Nils- Aslak Valkiapää, fyrsti og eini Saminn sem hlotið hefur Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, er Niillas Holmberg tólistarmaður og leikari auk þess að vera mjög áhugavert ljóðskáld. Niillas hefur líka unnið við samíska útvarpið og á Wikipediu er hann sagður umhverfisaktívisti. Sá titill kemur ekki á óvart þegar ljóðabækur hans eru skoðaðar. Hann hefur fengið fjölda viðurkenninga í öllum listgreinunum sem hann leggur stund á og hann hefur einu sinni áður, fyrir fimm árum, verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir ljóðabókina Amas Amas amasummmivat eða Svo að hinn ókunni verði ekki lengur ókunnugur sem þótti líkt og þessi bæði frumleg og áhugaverð. Kannski kominn tími til að bókmenntaverðlaun Norðurlandar´ðas fari öðru sinni til samíska málsvæðisins.

Mynd: norden.org/Oddfríður Marne Ras / norden.org/Oddfríður Marne Ras

Færeyingar tilnefna að þessu sinni skáldsögu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, ljóðræna skáldsögu sem ekki dregur dul á alvarleika umfjöllunarefnis síns, nefnilega vonlausa baráttu eiginkonu sögumannsins, við banvænt heilaæxli.

„Skrifa á það hvíta, leita í því myrka,“ eru upphafsorð sögunnar Ikki fyrr en tá eftir Oddfríð Marni Rasmussen sem líkt og sögumaður sinn, Janus, er ljóðskáld og er Ikki fyrr en tá er fyrsta skáldsaga hans. 

Þau Janus og Elsa hafa verið gift lengi, Elsa bjargaði honum, hjápaði honum að hætta að drekka, hélt honum við skriftirnar, „Farðu inn í herbergi,“ sagði hún, „þar er blaðið.“ Þau hafa ekki eignast börn en í fyllingu tímans fengu þau sér hund sem þau kölluðu einfaldlega Hund. Hundur skapar náttúrulega reglu í heimilislífið nú þegar það er heltekið af sjúkleika Elsu.

Skáldsagan Ikki fyrr en þá skiptist í tvo hluta, sá fyrri, sem ber yfirskrift titils bókarinnar, er skrifaður í þátíð og spannar síðustu tíu mánuði lífs Elsu. Allt hefur verið reynt, dagarnir líða, ljóðskáldið Janus hugsar og minnist, horfir á konuna sína sem hann þekkir ekki lengur. Stundum skrifar hann í grænu bókina þar sem hann safnar saman tilfinningum sínum, setur þær í orð áður en þær gleymast eða er kannski betra að gleyma og sakna því ekki.

Í upprifjun Janusar fá lesendur að vita hvernig æxlið gerði fyrst vart við sig, hvernig málstol, og ruglingsleg tjáning ágerðist og Elsa varð reið jafnvel ofbeldisfull. Hún varð að hætta í vinnunni, þar sem hún hafði sérfræðingsstöðu en var undir lokin í mesta lagi treyst til að ljósrita.  Nú er hún heima, stundum róleg stundum alveg óð, oftast þó róleg, raular stundum tímunum saman og ruggar fram og aftur. Hundur gætir hennar stund og stund svo að Janus getur endrum og sinnum mætt í hlutastarf sitt í Bókinni, bókabúð í Þórshöfn þar sem Páll ræður ríkjum. Páll sýnir allan hugsanlegan skilning og það gera líka margir aðrir, vinir, ættingjar. Það er gott en stundum líka erfitt.

Síðari hluti bókarinnar, sem ber titilinn First nú, er skrifaður í nútíð.  Jarðarförin er afstaðin og pyttlan sem þá hvíldi í buxnavasa Janusar löngu tæmd. Hið óumflýjanlega fall alkahólistans, þegar myrkrið er það eina og hvítt blaðið til að skrifa á víðs fjarri, staðreynd. Einn daginn kemur hann heim og það er einhver í íbúðinni. Það er Rósa, hann hafði víst boðið henni að gista í vinnuherberginu nóttina áður eftir því sem hún segir. Hann man ekkert. Hún heldur áfram að gista í vinnuherberginu, þrífur, býr til mat og spyr hvort konan á myndunum komi bráðum heim. Hún fer ekki með honum út að drekka, að minnsta kosti ekki til að byrja með, en hún er heima þegar hann kemur heim. Svo deyr hundurinn sem heitir Hundur. Janus grefur hann ofan ofan á kistu Elsu og bindur þar með enda á hrikalegt fylleríið. Rósa hjálpar honum.

Smátt og smátt kemst lífið í skorður, ljóð komast á blað, það verður til skáldsaga með upphafsorðunum „Skrifa á það hvíta, leita í því myrka,“ sem eru einnig lokaorð hennar.

Oddfríður Marne Rasmussen hefur gefið út allmargar ljóðabækur. Hann er útskrifaður úr Rithöfundaskóla Kaupmannahafnar og hefur starfað sem kennari og þýðandi auk þess sem hann er útgefandi Vencils, tímarits um fagurbókmenntir á færeysku. Hann hlaut Færeysku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Ikki fyrr en þá.