Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Einstakt afrek Antons Sveins

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Einstakt afrek Antons Sveins

26.10.2020 - 18:18
Eyleifur Jóhannesson, yfirmaður landsliðsmála Íslands í sundi, segir það ótrúlegt afrek að Anton Sveinn McKee hafi sett Norðurlandamet í 100 og 200 metra bringusundi í 25 metra laug um helgina. Anton keppti þá á ISL mótaröðinni sem er afar sterk liðakeppni, keppt var í Ungverjalandi um helgina.

 

Anton vann sinn riðil í 100 metra bringusundinu í gær þegar hann synti á 56,30 sekúndum. Það var annar dagurinn í röð sem Anton setti Íslands- og Norðurlandamet. Hann bætti nefnilega metið í 200 m bringusundi á laugardag.

„Þetta er auðvitað mjög stórt, bara heiður að fá að vera með á þessu móti, en það er ekki oft sem Norðurlandabúar fá boð að taka þátt á þessu móti. Og að koma beint frá Ameríku 5 dögum áður en keppnin hefst og byrja á því að setja Norðurlandamet í 100 og 200 metrum í bringusundi það er alveg einstakt,“ sagði Eyleifur í samtali við RÚV í dag.

„Þetta segir okkur að Anton er að gera sitt besta í að undirbúa sig vel fyrir næsta ár. Hann fór strax í gang eftir æfingahléið og æfði í gegnum sumarið.“

„Þetta eru góð fyrirheit að hann er góður að tækla þetta umhverfi, að keppa meðal þeirra bestu.“