Ber ekki saman um atburðarás á Landakoti

26.10.2020 - 22:14
Mynd: RÚV / RÚV
Forstjóri Landspítalans og framkvæmdastjóri meðferðarsviðs fullyrtu bæði í kvöld að enginn grunur hafi leikið á smiti á Landakoti fyrr en seinnipart fimmtudags. Þá fengu starfsmenn þar jákvæðar niðurstöður úr skimun og búið var að flytja smitaða sjúklinga þaðan á önnur hjúkrunarheimili, þar sem margir sýktust. Aðstandandi sjúklings telur ólíklegt annað en að grunur hafi leikið á smiti töluvert fyrr.

Hægt er að horfa á Kastljós kvöldsins hér.

Um 80 manns hafa smitast af COVID-19 eftir að hópsýking kom upp á Landakoti. Smitin eru rakin til heilbrigðisstarfsmanna en á Landakoti dvelur sá hópur fólks sem heilbrigðiskerfið leggur mesta áherslu á að vernda. Sjúklingar af Landakoti voru fyrir mistök sendir smitaðir bæði á Reykjalund og hjúkrunarheimilið Sólvelli á Eyrabakka þar sem fjöldi sjúklinga og starfsmanna hefur smitast og enn fleiri hafa þurft að fara í sóttkví. Þetta er í annað skiptið sem hópsmit kemur upp á Landakoti.

„Við sjáum ekki nein merki um að einhver alvarlegur misbrestur hafi orðið á. Þetta er veira sem virðist hafa smeykt sér inn með fólki sem er að gera sitt besta við erfiðar aðstæður og er að gæta sóttvarna,“ sagði Páll Matthíason, forstjóri Landspítalans, í Kastljósi í kvöld. „Við viljum skilja hvað þarna býr að baki til að geta forðast það að svona gerist aftur.“

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV

Dóttir manns sem var sendur frá Landakoti til Stykkishólms og til baka segir illa hafa verið staðið að skipulagi. Hann greindist jákvæður daginn eftir. Páll fullyrti í kvöld að enginn grunur hafi leikið á smiti á Landakoti fyrr en seinnipart fimmtudags.

Er rétt að það hafi verið kominn grunur um smit þegar hann var sendur af stað?
„Nei það er aðskilið. Þessi maður var farinn af stað. Síðan rennur upp fyrir fólki á Landakoti að það er komið upp hópsmit sem getur verið útbreitt og þá er farið af stað við það að kalla þá til baka sem hugsanlega væru farnir af stað og gætu verið veikir,“ segir Páll.

Það var þá tekin ákvörðun um að prófa og niðurstaða fengin á þessum tveimur tímum?
„Niðurstaðan úr prófi starfsmanns kemur eftir hádegið - seinni partinn á fimmtudeginum - og þá er þessi einstaklingur á leið til Stykkishólms.“

Þannig að það var kominn upp grunur um smit þegar hann var sendur af stað?
„Ég veit ekki nákvæmlega af hvaða ástæðum þessir starfsmenn fóru í skimun.“

Væntanlega vegna gruns um smit?
„Væntanlega hafa þeir verið með einhver einkenni.“

Þannig hann er sendur af stað en það er samt grunur um smit á Landakoti?
„Ég held og get fullyrt að þetta eru tveir óskildir atburðir.“

Þeir eru samt tengdir vegna þess að hann er COVID-smitaður og var á  leiðinni á hjúkrunarheimili? og sem betur fer ná þau að kalla hann til baka en það munaði litlu, hann var kominn á bílastæðið.
„Það er alveg rétt.“

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
einar's picture
Einar Þorsteinsson
Fréttastofa RÚV