Strákabandið sem þótti ekki nógu snoppufrítt

Mynd með færslu
 Mynd: Westlife - YouTube

Strákabandið sem þótti ekki nógu snoppufrítt

25.10.2020 - 16:22

Höfundar

Á breska topplistanum í október árið 1999 voru strákaböndin áberandi en þar mátti finna bæði Backstreet Boys og Westlife. Sömuleiðis var þar júrópopp og rokk og söngdívan Christina Aguilera var líka á listanum með sinn fyrsta stóra smell.

Ellismellir eru þættir á dagskrá Rásar 2 á sunnudögum þar sem ferðast er aftur í tímann og vinsældalistar fyrri ára eru skoðaðir. Þennan sunnudaginn er það breski vinsældalistinn í þessari viku í október árið 1999 sem er undir smásjánni. 

Ricky Martin situr í 63. sæti listans með fyrrum topplagið „Living La Vida Loca“ og aðeins ofar eru Tom Jones og The Cardigans með lagið „Burning Down the House“. Lou Bega og „Mambo no. 5“ eru líka á listanum en í tuttugasta og fyrsta sæti listans var glænýtt lag með hljómsveitinni Foo Fighters. Lagið var „Learn To Fly“ en það var fyrsta lag sveitarinnar sem komst á Billboard Hot 100 listann í Bandaríkjunum. Myndbandið við lagið vakti líka mikla athygli en þar eru Jack Black, eiturlyf og kaffi í aðalhlutverkum. 

Í tíunda sæti sat goðsögnin Tina Turner og í því níunda voru Destiny's Child með lagið „Bug a Boo“. Í sjötta sæti listans sat Júrópopplag í tvöfaldri merkingu, lagið „Blue (Da Ba Dee)“, en það var á plötu sem hét Europop og var flutt af  ítölsku hljómsveitinni Eiffel 65.

Drengirnir í Backstreet Boys sátu í fimmta sæti listans með lagið „Larger Than Life“ en fyrir ofan þá sat annar Júrópopp Ítali, söngkonan Ann Lee og lagið „2 Times“. Myndbandið við „Larger Than Life“ er auðvitað stórkostlegt, gerist í geimnum, er innblásið af bæði Blade Runner og Star Wars kvikmyndunum og inniheldur að sjálfsögðu alvöru strákabanda danskafla. 

Christina Aguilera með lagið „Genie in a Bottle“, sat í öðru sæti listans, en þetta var lagið sem skaut henni upp á stjörnuhimininn. Það er af fyrstu plötu söngkonunnar, sem hét einfaldlega Christina Aguilera, og er af mörgum talið eitt af einkennislögum tíunda áratugar síðustu aldar. 

Það var svo írska strákabandið Westlife sem trónaði á toppi breska vinsældalistans í þessari viku árið 1999. Aðdáendur X-factor þáttanna gætu kannast við þá Louis Walsh og Simon Cowell en þeir áttu talsverðan þátt í velgengni sveitarinnar.

Cowell var reyndar afar strangur á skilyrðunum fyrir því að þeir fengju að gefa út plötu hjá sér og sagði Walsh, sem var umboðsmaður þeirra, að hann þyrfti að reka að minnsta kosti þrjá meðlimi hljómsveitarinnar, þeir væru með fallegar raddir en sennilega ljótasta hljómsveit sem hann hafði séð. 

Á endanum voru þrír meðlimir sveitarinnar reknir og áheyrnarprufur voru haldnar í Dublin þar sem tveir nýir meðlimir, Nicy Byrne og Brian McFadden, urðu hluti af hljómsveitinni. Westlife nutu mikilla vinsælda á Bretlandseyjum og lagið sem situr hér í efsta sæti listans heitir „Flying Without Wings.“

Farið var yfir breska vinsældalistann árið 1999 í Ellismellum á Rás 2. Þátturinn er á dagskrá á sunnudögum klukkan 15 en sömuleiðis má hlusta á hann í spilara RÚV. Ef þig langar að heyra ákveðinn lista í þáttunum er hægt að senda tillögur í gegnum Facebooksíðu Rásar 2.