Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Schwarzenegger segist brattur eftir hjartaaðgerð

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Schwarzenegger segist brattur eftir hjartaaðgerð

25.10.2020 - 07:13

Höfundar

Bandarísk-austurríski leikarinn og fyrrum ríkisstjóri Kaliforníu Arnold Schwarzenegger segist vera nokkuð brattur en hann er að jafna sig eftir hjartaaðgerð sem hann undirgekkst á sjúkrahúsi í Cleveland Ohio.

Leikarinn sem er orðinn 73 ára þakkar læknum og hjúkrunarfólki fyrir góða umönnun og kveðst þegar vera orðinn nægilega hress til að fara út úr húsi, ganga um götur og dást að styttum borgarinnar.

Þetta er í þriðja sinn sem Schwarzenegger gengst undir hjartaaðgerð, það gerðist fyrst árið 1997 og aftur 2018.

Schwarzenegger er fæddur í Austurríki árið 1947 en fluttist vestur um haf rétt rúmlega tvítugur þar sem hann ætlaði að reyna fyrir sér í kvikmyndaborginni. Skömmu áður hafði hann unnið titilinn Herra Alheimur. 

Honum tókst ætlunarverkið og hefur leikið í fjöldanum öllum af stórmyndum af ýmsu tagi. Schwarzenegger hlaut bandarískan ríkisborgararétt árið 1983 og tuttugu árum síðar bauð hann sig fram til embættis ríkisstjórna Kalíforníu. Hann náði kjöri með yfirburðum og gengdi embætti til 2011.

Arnold Schwarzenegger er repúblikani og þykir fremur fremur frjálslyndur í skoðunum.