Línuleg dagskrá tímabundin bólusetning fyrir leiðindum

Mynd: Guiding Light / .

Línuleg dagskrá tímabundin bólusetning fyrir leiðindum

25.10.2020 - 16:57

Höfundar

Línuleg dagskrá getur verið raunveruleg heilsubót og sápuóperur reynst tímabundin bólusetning og andlegur björgunarhringur gegn strúktúrleysi faraldurstímans, að mati pistlahöfundar Lestarinnar.

Una Björk Kjerúlf skrifar:

„Dreptu mig ekki að fara að eyða tímanum í að tala um sápu og veiru. Er ekki nóg komið?“  Jú og nei. Það er víst ekki hægt að fara í gegnum dagana nú um stundir án þess að veiran snerti okkur á einn eða annan hátt, ekki bókstaflega vonandi en þið skiljið. Og þó ekkert sé bóluefnið enn sem komið er má að minnsta kosti reyna að finna leiðir til að gera sig ónæman fyrir ástandinu skamma stund, já bara til drepast ekki úr þeim leiðindum sem fylgt geta langdregnu tilbreytingarleysi takmarkana og hafta.

Þegar ég var í menntaskóla skall á verkfall. Rútína daganna rann út í sandinn. Hvatinn til að fara snemma í háttinn og snemma á fætur vék fyrir einni langri helgi. Þetta var svosem ágætt í fyrstu en eftir því sem dagarnir liðu varð þetta langa helgarfrí heldur tilbreytingarsnautt og leiðigjarnt. Þegar ljóst var að verkfallið myndi dragast eitthvað á langinn fóru samviskusamir nemendur að draga fram námsbækur og sinna lærdómi til að koma sem best undan verkfalli, eða til að drepa tímann og friða samviskuna. En lærdómurinn var ómarkviss þegar enginn var kennarinn og náði ekki nema að litlu leyti að fylla upp í dagana.

Við vinkonurnar ákváðum að þetta gengi ekki svona, að við þyrftum einhvern fasta í lífið, einhver skil í skammdeginu til að gera greinarmun á degi og nóttu. Og þau fundum við. Við ákváðum að gera sápuóperuna Guiding Light að leiðarljósi okkar og horfa á hana daglega. Ekki var það vegna þess að við hefðum gaman af sápuóperum, þvert á móti þótti okkur þær afar hallærislegar, mörgum metrum fyrir neðan virðingu okkar. Þetta var því allt í djóki. Fljótlega vorum við orðnar nokkuð vel staðkunnugar í Springfield þar sem undir formúleruðu og íhaldssömu yfirborði kraumuðu það villtir og frjálsir ástarmarghyrningar þvert á allar stéttir og siðgæði, að ættartöl Íslendingasagna og menntaskólarúmfræðin virtust allt í einu ekki svo flókin.

Yfir áhorfinu var svo undantekningalaust snædd mandarínuostakaka. Þess ber að geta að þættirnir voru á dagskrá síðdegis alla virka daga og vikulegur ostakökuskammtur því fimm stykki. Á endanum leystist verkfallið en þá vorum við vinkonurnar orðnar svo vel að okkur í hinni ýktu amerísku smábæjardramatík að okkur fannst við ekki geta annað en haldið áfram að fylgjast með örlögum, ástum og brestum þessara góðkunningja okkar af skjánum. Sápuáhorfið varð því eins konar eftirskólaprógramm fyrir okkur menntaskólastúlkurnar og í raun alls ekki svo illa með tímann farið því nokkrum árum seinna skrifaði ég lærða ritgerð í háskóla um téða sápuóperu sem er, með virðingu fyrir eftirrennurum hennar og samkeppisóperum, móðir allra sápuópera.

Ég leiddi hugann að þessari rútínu og ostakökuáti verkfallstímans þegar ljóst var að vírusplágan sem nú geisar myndi dragast á langinn. Það eru ekki einungis menntskælingar heldur landið allt og miðin sem þurfa að takast á við þennan óvissutíma sem ekki er nokkur leið að segja hvenær eða hvernig endar. Margir eiga erfiða daga, fólk hefur misst vinnu, afkomuótti þjakar marga til viðbótar við smithræðslu. Heimavinnan sem hófst á vormánuðum hjá mörgum var ágæt í byrjun og sýndu kannanir að fólki leið almennt betur þá en fyrir Covid. Heimaveran hafði jákvæð áhrif. Fólk hugsaði meira um líðan sína og heilsu enda trú og von flestra að þetta væri jú aðeins tímabil sem best væri að gera eins kósí og unnt væri enda bjartsýni í lofti með hækkandi sól og hitastig í kortunum.

En síðan er liðið heilt sótthreinsað, fjarlægða- og fjöldatakmarkað sumar, komið haust og ný bylgja risin, og það að vinna heima er orðið nokkuð langdregið kósíkvöld og flókið. Þreyta er farin að segja til sín. Víða eru það fleiri en einn og fleiri en tveir heimilismeðlimir sem eru með bækistöð vinnu og skóla við aðstöðuleysi eldhúsborðsins eða í heimaskrifstofuhorninu sem var græjað um páskana en mætir á engan hátt stöðlum Vinnu- eða Heilbrigðiseftirlits. Einbeitingin er fokin eins og lauf í haustlægð. Stoðverkir og augnþreyta farin að segja til sín langt fyrir aldur fram. Við þetta bætist hættan á að vinnuumhverfi heimilisins raskist enn frekar ef einhver dettur í sóttkví. Heima er best er ekki lengur best. Og hvað gerum við til að þreyja þorrann, þegar það er rétt rúmlega miður október og draumurinn um gleðilegt nýtt veirulaust ár 2021 virðist óskhyggjan ein samkvæmt nýjustu rannsóknum? Hvaða haldreipi höfum við að grípa í? Hvað getum við heimalningarnir gert til að dreifa huganum, hressa okkur við og halda rútínu?

Við leitum í viskubrunn eldri kynslóðarinnar sem man tímana tvenna. Kynslóðarinnar sem miðar dægrin við sólargang, veðurspá og línulega dagskrá. Kynslóðarinnar sem skilur að sápuóperur eru epík, nútímaútgáfa af Íslendingasögunum og öllu þessu gamla stöffi, prinsippkynslóðarinnar sem hikar ekki við að afboða sig í fjölskyldumatarboð ef það skarast á við stefnumót við Nágranna eða aðra félaga úr heimi sápunnar. Og ég segi þetta ekki af neinni léttuð gagnvart okkar elstu og bestu borgurum, þvert á móti. Þau vita nefnilega sem er að hin línulega dagskrá er fasti sem í svona árferði er akkúrat það akkeri sem við þurfum. Það er ekki sama aðhaldið í streymisveitum og tímaflakki og í línulegu dagskránni.

Þetta er svona eins og munurinn á því að mæta á ákveðnum tíma í ræktina annars vegar og að vera í fjarþjálfun eða með Jane Fonda æfingabók við höndina hins vegar. Eitthvað sem við getum gripið til hvenær sem er og af því það er hægt hvenær sem er þá er svo fjandi þægilegt að fresta því aðeins, fram yfir hádegi, fram yfir miðdagskaffið og svo framvegis. Ekki er þó sama hvað á er horft línulega. Við þurfum dramatík og nóg af henni. Flækjufaktora sem toppa raunveruleikann, fólk sem hefur það meira skítt en við, sem fær okkur til að hrista hausinn af vandlætingu, yfir afleitum leik og plotti, hneykslast, sveia og hlæja. Hér dugar ekkert snobb. Það er nauðsynlegt að fara alla leið í ýkjunum og taka inn ríflegan dagsskammt af sápuleginni dramatík svo við töpum okkur ekki í okkar eigin glataða ástandi.

Þó svo við þurfum að glíma við ýmislegt þá er ekki sjens í helvíti að vandamál okkar toppi hremmingar sápudrottninga og -kónga. Fjölskyldutréð okkar er, þrátt fyrir einstaka innræktun og hliðarspor, mun einfaldara í sniði en tré fimm-, sex- og sjögiftra Springfieldbúa og við þurfum vonandi aldrei að kljást við vonda tvíburann okkar sem dúkkar skyndilega upp en reynist svo vera ólöglegt klón sem fyrrum elskhugi skapaði og notaði öldrunarserum til að ná okkur í aldri og útliti. Þannig að strangt til tekið megum við bara vera fegin hvað við lifum á tímum mikilla þæginda þar sem flækjustig er mun minna en í uppdiktuðum smábæjum sápuópera. Þó það sé vissulega heimsfaraldur þá er enginn frostaveturinn mikli, húsin okkar eru upphituð, meginþorri fólks vel skóaður og nærður. Það er helst glíman við leiðindin sem við þurfum að sigra, að komast úr kósígallanum og finna festu í misskipulagi daganna.

Ég held það sé ekki bara nostalgía heldur raunveruleg heilsubót að meðtaka línulega dagskrá og nota hana sem tímabundna bólusetningu og andlegan björgunarhring gegn strúktúrleysi. Það gerir okkur ekkert nema gott að marínerast í dægurmenningu af léttara taginu í ákveðna stund á hverjum degi, leggja verkin til hliðar og sótthreinsa hugann með góðri, eða vondri, sápu. Þá er heilagt!

Tengdar fréttir

Pistlar

Hinn póstmóderníski síðnútími, ástin og einskisvalið

Pistlar

Elítismi fyrir fólkið

Pistlar

Þröskuldur villimennskunnar

Tónlist

Segulmögnuð áhrif tónlistar eftir samkomubann