Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kvöldfréttir: Aldrei fleiri með COVID-19 á Landspítala

25.10.2020 - 18:47
Aldrei hafa fleiri verið með COVID-19 á Landspítala í einu. Á þriðja hundrað starfsmanna spítalans er í sóttkví og tugir í einangrun með sjúkdóminn. Spítalinn starfar á neyðarstigi í fyrsta sinn frá því að faraldurinn hófst hér á landi í vor.

Framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar sem gerir út Júlíus Geirmundsson segir reginmistök að hafa ekki tilkynnti Landhelgisgæslunni um veikindin um borð. Hann segist miður sín og biður skipverja einlæglega afsökunar.

Nærri fjögur þúsund Pólverjar eru á atvinnuleysisskrá á Íslandi. Ein þeirra segir geta verið erfitt að tala ekki reiprennandi íslensku í samkeppni við Íslendinga um vinnu. Margir Pólverjar sem hún þekki hér séu atvinnulausir og líði illa.

Margir sem kjósa Biden segjast gera það því hann er ekki Trump, segir Íslendingur sem búsettur er í Texas og fylgist náið með kosningabaráttunni. Fréttastofa heyrði í nokkrum Íslendingum í Bandaríkjunum um stöðuna nú þegar kjördagur nálgast.

Dýrafjarðargöng voru opnuð við hátíðlega athöfn í dag og leysa þar með Hrafnseyrarheiði af hólmi. Grunnskólakrakkar á Þingeyri fagna göngunum, það hafi verið langt, óþægilegt og drullugt að þurfa að fara heiðina.

Fjölmargar 200 metra háar vindmyllur gætu risið á Mosfellsheiði innan fárra ára, verði hugmyndir norsks fyrirtækis að veruleika. Kostnaður nemur tugum milljarða. Umverfismat er í undirbúningi og Skipulagsstofnun hefur fengið margar athugasemdir.

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir