Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Þrír til viðbótar smitaðir á Landakoti

24.10.2020 - 19:27
Mynd: RÚV / RÚV
Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans segir að þrír sjúklingar hafi bæst við þá 16 sjúklinga sem greindust í gær með Covid sýkingu á Landakoti. Þá eru 10 starfsmenn einnig smitaðir. Hann segir að hópurinn sé viðkvæmur og það segi sína sögu að flytja þurfi fólk á spítala.

Í tengslum við smit á Landakoti hefur einnig greinst smit á Sólvöllum, heimili fyrir aldraða á Eyrarbakka, en þangað flutti íbúi frá Landakoti.

„Ég var að fá þær fréttir rétt áðan að þrír sjúklingar í viðbótar hafa bæst við með Covid sýkingu á Landakoti svo við höfum ekki náð eins vel utan um þá sýkingu eins og við vonuðumst til.“ segir Páll.

Verið sé að fylgja eftir og rekja smit á öðrum sjúkrastofnunum. Enginn sem hefur smitast er á gjörgæslu en hópurinn sé viðkvæmur. Hann gerir ráð fyrir að  smitum eigi eftir að fjölga áfram.

„Ég vona að svo sé ekki, en ég óttast og ég held að við verðum að gera ráð fyrir því að við séum ekki búin að sjá fyrir endann á þessarri klasasýkingu og já það muni fjölga áfram.“ segir Páll.