Skútan vélavana og dráttarbáturinn með í skrúfunni

24.10.2020 - 17:24
Mynd: Aðsend mynd: Óskar Harðarson / RÚV
Björgunarsveitin Suðurnes í Reykjanesbæ var kölluð út um miðjan dag til að aðstoða tvo báta sem lentu í vandræðum við Njarðvíkurhöfn. Verið var að sjósetja skútu og fékk dráttarbátur sem var að aðstoða við sjósetninguna taug í skrúfuna.

Skútan Lóa hefur staðið í slipp í Njarðvíkurhöfn í 38 ár. Til stóð að sjósetja hana í dag en hún var vélavana og því var annar bátur, Elli Jóns,  fenginn til að draga hana úr slippnum yfir í höfnina. Taugin á milli bátanna slitnaði og fékk dráttarbáturinn taugina í skrúfuna. Því rak ráða bátna í brimi utan við slippinn í Njarðvíkurhöfn og strandaði skútan á steini. Dráttarbátinn, lítil trylla rak upp í grjótgarðinn í grennd við slippinn. Þrír voru um borð í skútunni og 2 í dráttarbátnum. Haraldur Haraldsson er formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes. 

„Þá erum við kölluð út af lögreglu. Fyrsta sem við gerðum var að sjósetja björgunarbátinn. Við fórum að skútunni og ferjuðum fólkið sem var þar um borði í land. Hinn báturinn var kominn upp í grjótið og þar var engin hætta fyrir mannskapinn þar. Skútan var rýmd og dregin í höfn. Dráttarbáturinn Auðunn dró hinn bátinn í höfnina.“ segir Haraldur.

Engum varð meint af en veðrið var ekki gott. Haraldur segir að það hafi verið haugasjór utan við slippinn og að báturinn sem fór upp í grjótgarðinn hafi barist  til þar en það hafi ekki komið leki að honum. Björgunaraðgerðir hafi gengið vel og hratt fyrir sig. 

„Það tókst mjög vel til. Það er þannig að þegar það er fólk í sjávarháska þá verður maður að setja fullt viðbragð. Við vorum boðuð út á hæsta viðbragði sem er forgangur 1.“ segir Haraldur. Til að mynda hafi 2 kafarar verið í viðbragðsstöðu í útkallinu. Menn hafi búið sig undir það versta. 

Víkurfréttir birtu myndir og mynskeið af vettvangi á vefsíðu sinni.

Fréttin hefur verið uppfærð