Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Minnir á mál sem komu upp á stríðstímum“

24.10.2020 - 19:35
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Lára V. Júlíusdóttir, sérfræðingur í vinnurétti, segir mál skipverjanna á Júlíusi Geirmundssyni jafnvel einstakt í íslenskri sögu. Hún velti því fyrir sér hvort brotið hafi verið á grundvallarmannréttindum.

„Meginábyrgð á áhöfn skipsins liggur hjá skipstjóranum. Skipstjórinn er náttúrulega sá aðili sem útgerðin ræður til þess að bera þessa ábyrgð.“

Lára vísar til 76. greinar sjómannalaga þar sem segir að vanræki skipstjóri skyldur sínar við veika eða slasaða sjómenn varði það sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, eða fjórum ef sakirnar eru miklar. Þá sé réttarfar sjómannalaga ólíkt öðru refsiréttarfari að því leyti að ráðuneyti hafi úrslitavald um hvort ákært sé. Lögreglan á Vestfjörðum skoðar nú hvort hefja eigi rannsókn á málinu. 

„Þegar maður skoðar það hvort það hafi dómar gengið á grundvelli eða út af þessari 76. grein og leitar eftir dómum með vísan til þessarar greinar þá finn ég enga dóma. Það er eins og það hafi ekki reynt á þetta ákvæði í sjómannalögum fyrr en núna.“

Þannig að þetta er jafnvel, í sögulegu samhengi, alveg einstakt dæmi?

„Það sýnist mér.“

Brotið á mál- og tjáningarfrelsi mannanna

Skipverjar segja þá að samskiptabann hafi verið sett á og þeim ekki leyft að ræða veikindin á samfélagsmiðlum eða við fréttamenn. 

„Út frá almennum sjónarmiðum um málfrelsi og tjáningarfrelsi þá getur maður velt því fyrir sér hvort þarna sé ekki verið að brjóta grundvallarmannréttindi á mönnum með því að fyrirskipa þeim svona hluti.“

Minnir á mál sem komu upp á stríðstímum

Lára segir erfitt að finna sambærilegt tilvik. 

„Þetta minnir kannski á mál sem komu upp á stríðstímum þar sem um er að ræða skip sem verður fyrir árás annars skips eða eitthvað slíkt. Þetta er ákveðið neyðarástand sem kemur þarna upp og þá verða aðilar að bregðast við út frá neyðinni sem er komin upp.“

Krefjast heiðarlegra svara frá útgerð og skipstjóra

Fréttastofu barst yfirlýsing í dag frá Jónasi Eyjólfi Jónassyni, bátsmanni, fyrir hönd skipverja. 

Hann segir áhöfnina fyrst og fremst mjög sára yfir viðbrögðum útgerðar og skipstjóra í málinu. Þeir telji sig eiga betra og meira skilið en nístandi þögn og krefjist þess að fá heiðarleg svör um hvernig í pottinn var búið. Augljóst sé að verkferlar hafi verið brotnir og ekki skýrt hvernig samskiptum var háttað á milli skipstjóra og útgerðar. 

Aflanum landað í dag

Aflanum úr Júlíusi var landað í dag. Matvælastofnun sagði óhætt að vinna aflann líkt og aðrar afurðir þar sem ekkert bendi til þess að fólk geti smitast af COVID-19 út frá matvælum. Samkvæmt heimildum fréttastofu verður skipið sótthreinsað eftir helgi. 

Fréttastofa hefur ítrekað beðið forsvarsmenn útgerðarinnar um viðtal en alltaf fengið neitun. Bæði í dag og síðustu daga. Þá hefur skipstjóri togarans einnig neitað að tjá sig.