Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Isavia drífur í flutningum eftir að mygla greindist

24.10.2020 - 12:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Móðurfélag Isavia flytur höfuðstöðvar sínar af Reykjavíkurflugvelli að Dalshrauni í Hafnarfirði innan skamms. Starfsemin verður nú öll á einni hæð en hefur verið í sjö hæða turni á Reykjavíkurflugvelli. Isavia hafði um skeið leitað að framtíðarhúsnæði undir starfsemi sína en það var sett á bið eftir að COVID-faraldurinn hófst. Þegar í ljós kom að enn er mygla í Turninum, sem greindist upphaflega árið 2016, var ákveðið að flýta flutningi höfuðstöðvanna.

Í svari Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia, við fyrirspurn fréttastofu segir að ekki væri boðlegt að bjóða starfsmönnum upp á heilsuspillandi starfsumhverfi. „Árið 2016 uppgötvaðist mygla í núverandi húsnæði aðalskrifstofu, í Turninum við Reykjavíkurflugvöll, og á þeim tíma var farið í framkvæmdir við hreinsun. Nú hefur komið í ljós að það er enn til staðar mygla í byggingarefni og því var tekin ákvörðun um að flýta flutningi höfuðstöðvanna.“

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, segir í tilkynningu til starfsmanna að nýja húsnæðið henti mjög vel til skrifstofuhalds og hafi þann kost að stytta ferðatímann milli höfuðstöðvanna og Keflavíkurflugvallar töluvert. Isavia fær húsnæðið í Dalshrauni afhent 1. desember en óljóst er hvenær af flutningum verður. 

Isavia ANS sem sinnir flugleiðsögu verður áfram á Reykjavíkurflugvelli.