Forðabúrið fær nýja merkingu í Nýlistasafninu

Mynd: RÚV / RÚV

Forðabúrið fær nýja merkingu í Nýlistasafninu

24.10.2020 - 10:26

Höfundar

Útskriftarverk meistaranema í myndlist hafa verið sett upp í Nýlistasafninu. Sýningin bíður þó opnunar þar til aðstæður leyfa. 

Átta listamenn eiga verk á sýningunni sem ber titilinn Forðabúrið. Sýningarstjóri er Hanna Styrmisdóttir. „Forðabúrið vísar til þeirrar þekkingar sem verður til og endurnýjast stöðugt í starfi listamannsins en sömuleiðis tæknilegrar hæfni og mjög fjölþættrar einstaklingsreynslu,“ segir hún. „Við fórum marga hringi og mátuðum alls konar leiðir við að gefa þessari sýningu nafn, og þetta varð niðurstaðan: Forðabúr, sem síðan tók á sig nýja merkingu þegar ekki var hægt að opna sýninguna. Svo er það náttúrulega hluti af þeirra námi, bæði á fyrri stigum námsins og í meistaranáminu að tileinka sér það að færa hugmynd til framkvæmdar, hvað sem sú framkvæmd felur í sér. Það er náttúrulega hluti af þeirra hæfni og þeirra þekkingu.“

Margar sögur

Nemendurnir átta eru Guðrún Sigurðardóttir, Hugo Llanes, Lukas Bury, Mari Bø, María Sjöfn, Nína Óskarsdóttir, Sabine Fischer og Sísí Ingólfsdóttir. Sýningin markar lok útskriftarhátíðar Listaháskólans. Mikil breidd er í sýningunni að mati Hönnu. „Þau eru mjög ólík og þeirra verk mjög fjölbreytt. Þau vinna á gríðarlega víðu sviði og eru í raun og veru að segja mjög margar sögur. Ekki í neinu tilfelli er verið að segja eina sögu, það eru margar sögur í hverju verki.“

Þróast og breytist

Upphaflega stóð til að opna sýninguna í vor en enn hafa aðstæður ekki leyft opnun. „Vegna þess að það lengdist svona í sýningarundirbúningnum, sem tók marga mánuði í stað tveggja, þá hafa náttúrulega sum verkin tekið breytingum, þroskast og þróast og jafnvel breyst mjög mikið,“ segir Hanna. Nemendur vinna með fjölbreyttan efnivið. „Það er heklað, kappmellað, smíðað, ljósritað og límt, unnið með síma, teknar upp myndir og þær unnar í myndvinnslu. Svo er einn nemandi að þrívíddarprenta leir,“ segir Hanna.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mexíkó mætir Bónus í verki Hugos Llanes

Beint í kælinn

Í einu verkanna er unnið með breytingu á sýningarrýminu þar sem settur var upp veggur ásamt inngangi áþekkur þeim sem þekkist í kælirými matvöruverslana. „Hugo Llanes er frá Mexíkó og kom hingað fyrir rúmum tveimur árum til að stunda meistaranám í myndlist. Móðir hans á og rekur lífrænan súraldinsbúgarð í Vera Cruz. Þegar hann kom til Íslands held ég að hann hafi komið beint af flugvellinum og inn í Bónus og gekk þar inn í kæliskápinn, sem hafði mikil og djúpstæð áhrif á hann. Hann vinnur mikið með okkar leiðir til þess að yrkja jörðina og veltir fyrir sér áhrifum kapítalismans á ræktunaraðferðir okkar mannanna,“ segir Hanna.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ikeahillurnar í verkum Sabine Fischer hafa sögulega merkingu

Símalist

Verk Nínu Óskarsdóttur samanstendur af skúlptúr úr viði, leir og tækjum. „Nína vinnur með leir og keramik og síðan notar hún símann sem einhvers konar framlengingu á stöðu- og hreyfiskyninu, hvernig við staðsetjum okkur og hvernig við snúum okkur. Það er stundum kallað sjötta skilningarvitið og er þáttur sem er mjög ríkur í hennar verkum,“ segir Hanna. Að hennar sögn eru verkin ekki síst byggð á reynsluheimi og bakgrunni listamannanna. „Mér þykir mjög vænt um öll þessi verk, þau eru sum hver mjög persónubundin og auðvitað mjög persónuleg, sum hafa líka um leið einhverja sögulega skírskotun sem skiptir mjög miklu máli,“ segir hún og nefnir verk Sabine Fischer sem dæmi. „Það  liggur annars vegar í hennar æskuupplifun og hefur um leið sögulegan þráð. Hún er alin upp í Austur-Þýskalandi og hún notar í verkum sínum barnateikningar og IKEA hillur. Það er staðreynd sem IKEA hefur beðist afsökunar á að 8. og 9. áratug síðustu aldar var IKEA í samstarfi við stjórnvöld í Austur Þýskalandi og pólitískir fangar þar framleiddu að minnsta kosti einhverjar IKEA hillur, einhverjar af þeirra vörum. Sabine ólst upp við IKEA hillur á heimili sínu og þetta er einhvers konar sambland af hennar æskuminningum, verkið hennar, og væginu sem þessi staðreynd hefur í hennar lífi og hennar úrvinnslu á hennar flóknu reynslu,“ segir Hanna. 

Tilkynnt verður um opnun á vef sýningarinnar þegar þar að kemur en þar má einnig finna upplýsingar um verkin og höfunda þeirra.

Tengdar fréttir

Myndlist

Fæst við dauðann fyrri part dags og lífið á kvöldin

Hönnun

Fuglasmiður í opinni vinnustofu

Myndlist

Rannsakar tengslin milli matar og kynlífs