Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Trampólín braut stofuglugga og unglingar í ökuferð

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Trampólín fauk á hús í Grafarholti seint í gærkvöldi og braut þar stofuglugga. Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur einnig fram að skömmu eftir klukkan átta í gærkvöld réðist farþegi í bifreið að ökumanninum, krafði hann um peninga, hótaði lífláti og stal loks rafmagnshlaupahjóli úr aftursæti bifreiðarinnar.

Lögregla upplýsir að mennirnir þekktust lítið en sá sem ráðist var á hafði boðið hinum far. Ökumaðurinn þurfti að leita á Bráðadeild til aðhlynningar.

Skömmu eftir miðnætti var bifreið ekið upp á kantstein á Seltjarnarnesi, ökuljós voru ekki kveikt og í dagbók lögreglu segir að ökumaðurinn hafi ekki notað stefnuljós.

Sá var ekki með ökuréttindi og hafði aldrei öðlast þau, enda ekki nema fimmtán ára. Með í för voru fjórtán og sextán ára unglingar. Forráðamenn voru kallaðir til og lögregla tilkynnti málið til barnaverndar.

Síðdegis í gær stöðvaði lögregla för bifreiðar sem ekið var um án skráningarmerkja en ökumaðurinn er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV