Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Sum ný nöfn þóttu hneykslanleg og rangmynduð

Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons

Sum ný nöfn þóttu hneykslanleg og rangmynduð

23.10.2020 - 09:03

Höfundar

Arngrímur Jónsson lærði, sem var uppi á 17. öld, var fyrsti Íslendingurinn sem tók upp eftirnafn. Hann notaði stundum nafnið Vídalín. Niðjar hans notuðu það síðar sem ættarnafn. Ættarnöfnum fjölgaði jafnt og þétt á Íslandi allt þar til fyrstu mannanafnalögin voru sett.

Það er ekki mjög langt síðan ættarnöfn voru fyrst tekin upp á Íslandi. Arngrímur Jónsson er talinn hafa verið fyrstur til að taka upp slíkt eftirnafn, sem gat þá auðvitað ekki kallast ættarnafn. Hann tók upp nafnið Vídalín og kenndi sig þannig við Víðidal í Húnavatnssýslu. Skömmu síðar kom ættarnafnið Thorlacius fram og eru þessi tvö ættarnöfn jafnan talin þau elstu á Íslandi. Anna Sigríður Þráinsdóttir málfarsráðunautur fjallaði um íslensk ættarnöfn og mannanafnalög í Morgunútvarpinu á Rás 2. 

Að sögn Önnu Sigríðar hófst upptaka ættarnafna þegar efnameiri Íslendingar fóru til náms í Kaupmannahöfn og kynntust þessari tískubylgju þar. Ættarnöfnum á Íslandi fjölgaði svo talsvert á 18. og 19. öld. Á endanum þótti mörgum nóg komið og árið 1914 voru sett lög um mannanöfn og þar voru ættarnöfnum settar skorður.

Alþingi vildi koma böndum á nafngiftir landsmanna. Í greinargerð með furmvarpi til fyrstu mannanafnalaganna var talað um að það þyrfti að koma í veg fyrir að börnum væru gefin hneykslanleg og rangmynduð nöfn á borð við Kristjúlía, Katriníus og Samúelína.

„Á þessum tíma var þetta bendlað við tísku, það hefur alltaf fylgt nafngiftum. Nafngiftir fylgja tísku,“ segir Anna Sigríður. 

Alþingi taldi einnig að það þyrfti að setja reglur um hvernig mætti mynda ættarnöfn. Þingmenn sömdu því frumvarp til laga um mannanöfn, það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Lögin tóku gildi 1914 og þá var fyrsta mannanafnanefndin einnig skipuð. 

Í þessum mannanafnalögum var kveðið á um að taka mætti upp ný ættarnöfn en fyrir það varð að greiða. Einnig þurfti að greiða fyrir að festa sér ættarnafn sem þegar var í notkun. Kostaði tvær krónur að staðfesta ættarnafn og tíu krónur að fá nýtt ættarnafn samþykkt. 

Fyrsta mannanafnanefndin stofnuð með þessum lögum. Verkefni hennar var að útbúa lista yfir íslensk mannanöfn. „Það voru þrír menn í þessari nefnd og þeir fengu að ráða því hvaða nöfn voru leyfileg á Íslandi. Fram að því voru engar hömlur á nöfnum,” segir Anna Sigríður.