Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skrifstofustjóri ráðuneytis frestaði gildistöku laga

23.10.2020 - 14:29
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Fyrrverandi skrifstofustjóri í Atvinnu og nýsköpunarráðuneytinu fór fram á frestun lagabirtingar um laxeldi í Stjórnartíðindum seinasta sumar. Lögin tóku því ekki gildi strax og laxeldisfyrirtækjum gafst svigrúm til að skila inn gögnum til Skipulagsstofunar samkvæmt eldri lögum um fiskeldi.

Stundin greinir frá málinu í dag. Lög taka ekki formlega gildi fyrr en þau hafa verið birt í Stjórnartíðindum. Sumarið 2019 voru samþykkt ný lög á Alþingi um fiskeldi. Við gildistöku þeirra þurftu þau fyrirtæki sem ekki höfðu skilað inn frummatsskýrslu um eldisáform að vinna samkvæmt nýju lögunum, sem eru mun strangari. Til að mynda felst í nýju lögunum að bjóða eigi út ákveðin eldissvæði af hálfu hins opinbera.

Fengur rekstrarleyfi samkvæmt gömlu lögunum

Samkvæmt gömlu lögunum gátu fyrirtækin sjálf fundið sér svæði og hafið eldi þar eftir að hafa sótt um leyfi og mat á umhverfisáhrifum.  Með því að senda inn frummatsskýrslu til Skipulagsstofnunar geta fyrirtækin sótt um rekstrarleyfi á grundvelli gömlu laganna. Nýju lögin voru fyrst birt í Stjórnartíðindum 10 dögum eftir símtal skrifstofustjórans til Stjórnartíðinda og tæpum mánuði frá því þau voru samþykkt á Alþingi í júní árið 2019.

Frest­un­in varð til þess að lax­eld­is­fyr­ir­tæk­junum Arctic Fish, Arn­ar­lax og Lax­eldi Aust­fjarða gafst svigrúm til að skila inn gögn­um til Skipu­lags­stofn­un­ar áð­ur en nýju lög­in tóku gildi. Ekki kemur fram í svörum ráðuneytisins til Stundarinnar hvort eða hvers eðlis samskipti skrifstofustjórans við umrædd fyrirtæki voru. 

Persónuleg ákvörðun

Afskipti skrifstofustjórans fyrrverandi komst upp innan ráðuneytisins í sumar. Skrifstofustjórinn var sendur í leyfi og var svo sagt upp störfum í skipulagsbreytingum innan ráðuneytisins í kjölfarið. Hann hafði gegnt starfinu frá árinu 2013. Uppsögnin er ekki sögð tengjast málinu. Kolbeinn Árnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri SFS var ráðinn skrifstofustjóri yfir skrifstofu fiskeldis og matvælaöryggis innan Atvinnu og nýsköpunarráðuneytisins. 

Skrifstofustjórinn fyrrverandi, Jóhann Guðmundsson, hringdi sjálfur í Stjórnartíðindi og var það alfarið hans persónulega ákvörðun samkvæmt svörum ráðuneytisins til Stundarinnar. Fram kemur að þetta mál, þar sem starfsmaður ráðuneytis gengur fram með þessum hætti og frestar gildistöku og birtingu laga sé það fyrsta sinnar tegundar. Jóhann var æðsti yfirmaður skrifstofunnar. Hann heyrði undir ráðuneytisstjóra og Sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson.