Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skipverjar báðu endurtekið um að fá að fara í sýnatöku

23.10.2020 - 20:57
Mynd: Jóhannes Jónsson / RUV.is
Verkalýðsfélag Vestfirðinga segir að skipverjum á Júlíusi Geirmundssyni hafi verið haldið nauðugum og veikum við vinnu á sjó á meðan sýking herjaði á áhöfnina. Nánast enginn fæst til að tjá sig um málið.

Félagið átti í dag fund með skipverjum um framgang mála þegar 22 af 25 sýktust af COVID-19 í þriggja vikna veiðiferð. Borið hafi á einkennum strax á fyrstu dögum en ekki verið ákveðið að fara í land í sýnatöku. 

„Skipstjóri sendir menn í einangrun og allt bendir til smits. Meira að segja þegar hann fer úr klefanum er sótthreinsað eftir hann þannig að það virðist enginn ágreiningur um smit um borð. Samt voru þeir á sjó í 22 eða 23 daga,“ segir Bergvin Eyþórsson varaformaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Þá hafi orðið lyfjaskortur um borð og þurft að forgangsraða hverjir fengju verkjalyf.

Algert skeytingarleysi

Í tilkynningu segir félagið að skeytingarleysi útgerðar og skipstjóra hafi verið algert. Samskiptabann hafi verið sett á svo ekki mátti tala við fréttamenn um veikindin. Skipverjum hafi þannig verið haldið nauðugum og veikum við vinnu úti á sjó á meðan COVID-19 herjaði á áhöfnina.

„Þannig að þeir unnu þarna undir miklu máli og náttúrulega reyndu sitt besta. En allan tímann voru þeir að biðja um að fá að fara í test. Í COVID-prufu. En alltaf sagt við þá að það væri ekki þörf á því,“ segir Bergvin.

Vilja afsökunarbeiðni frá útgerðinni

Hann segir að mennirnir séu reiðir og bíði þess að útgerðin biðji þá afsökunar. Verkalýðsfélagið ræði nú við önnur stéttarfélög og athugi hver næstu skref verða í samráði við lögmenn. 

Lögreglan á Vestfjörðum staðfestir í samtali við fréttastofu að hún kanni nú hvort tilefni sé til að hefja sakamálarannsókn. 

Hvorki skipverjar né aðstandendur þeirra sem fréttastofa hefur talað við vildu tjá sig um málið. Þá hefur útgerðin, Hraðfrystihúsið Gunnvör, neitað ítrekuðum beiðnum um viðtal. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða vildi ekki heldur tjá sig um málið þegar leitað var eftir því.