Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Samið um vopnahlé í Líbíu

23.10.2020 - 16:07
epa08767992 A handout photo made available by UN Photo shows participants of the fourth round of the 5+5 Libyan Joint Military Commissionsign signing an Agreement for a Complete and Permanent Ceasefire in Libya, at United Nation's Palais des Nations in Geneva, Switzerland, 23 October 2020. According to the United Nations (UN), the two rival sides in the Libyan civil war have agreed on a nationwide ceasefire.  EPA-EFE/Violaine Martin / UN PHOTO HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - Sameinuðu þjóðirnar
Stríðandi fylkingar í Líbíu undirrituðu samkomulag um vopnahlé í dag eftir fimm daga samningaviðræður í Genf í Sviss að undirlagi Sameinuðu þjóðanna. Vopnahléið á að verða varanlegt.

Stöðugur ófriður hefur verið í Líbíu frá því að einræðisherranum Muammar Gaddafi var steypt af stóli árið 2011. Gróf mannréttindabrot hafa verið framin af vopnuðum hópum sem hafa barist um völdin. Misindismenn hafa notfært sér ringulreiðina til að smygla flóttafólki og hælisleitendum frá Líbíu til Evrópuríkja, sér í lagi Ítalíu.

Í höfuðborginni Trípólí í vesturhluta landsins hefur ríkisstjórn sem Sameinuðu þjóðirnar viðurkenna verið við völd. Þingið hefur setið í borginni Tobruk þar sem hersveitir stríðsherrans Khalifa Haftars hafa ráðið lögum og lofum.

Haftar hefur notið stuðnings Rússa, Egypta og araba í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Hann hóf hernaðaraðgerðir í apríl í fyrra í því augnamiði að leggja Trípólí undir sig, en var hrakinn til baka í byrjun þessa árs þegar stjórnarherinn fékk hernaðaraðstoð frá Tyrkjum. 

Sendinefnd Sameinuðu þjóðanna í Líbíu segir á Facebook í dag að samkomulagið sem var undirritað í dag sé sögulegt. Það sé mikilvægt skref í að koma á friði og stöðugleika í landinu. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV