Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Landsréttur mildar dóm fyrir hrottafengna árás í Eyjum

Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Ragnarsdóttir - RÚV
Landsréttur stytti í dag dóm yfir Hafsteini Oddssyni úr sex árum í fjögur. Hafsteinn var sakfelldur fyrir grófa líkamsárás á konu í Vestmannaeyjum fyrir fjórum árum. Þá lækkaði dómurinn þær miskabætur sem Hafsteini var gert að greiða í héraði úr 3,5 milljónum í 2 milljónir.

Landsréttur segir að árásin hafi verið sérstaklega fólskuleg og ófyrirleitin og hafi einkum beinst að höfði konunnar. Þá hafi hann rifið konuna úr fötum og skilið hana eftir nakta og hjálparlausa síðla nætur.

Dómur héraðsdóms var ekki kveðinn upp í málinu fyrr en þremur árum eftir árásina. Rannsókn málsins tók langan tíma og erfiðlega gekk að ná tali af vitnum. Hvorki Hafsteinn né konan gáfu skýrslu fyrir dómi en Landsréttur segir að sannað sé með læknisvottorðum, matsgerðum og framburði lækna og matsmanns að konan hafi orðið fyrir stórfelldri líkamsárás.

Tvö vitni sem komu fyrir dóminn gátu ekki borið kennsl á Hafstein við sakbendingu en Landsréttur segir að ekki verði fram hjá því litið að lýsingar þeirra svari til klæðaburðar hans um nóttina og útlits hans.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV