Katrín fjórða eftir fyrstu þrjár greinar heimsleikanna

Mynd með færslu
 Mynd: The CrossFit Games - RÚV

Katrín fjórða eftir fyrstu þrjár greinar heimsleikanna

23.10.2020 - 20:16
Ofurúrslit heimsleikanna í CrossFit hófust í Bandaríkjunum í dag. Aðeins fimm keppendur í karla- og kvennaflokki taka þátt í ár vegna COVID-19 og er Katrín Tanja Davíðsdóttir á meðal þeirra fimm sem keppa í kvennaflokki. Nú er þremur keppnisgreinum lokið af fimm á fyrsta keppnisdegi og er Katrín Tanja í þriðja sæti í heildarstigakeppninni.

Hin ástralska Tia-Claire Toomey, sem hefur fagnað sigri á heimsleikunum síðustu þrjú ár í röð, er efst eftir fyrstu þrjár greinarnar með nokkuð góða forystu. Katrín Tanja varð í fjórða sæti af fimm í fyrstu grein dagsins en í annarri greininni, sem var sandpokahlaup, varð hún önnur í mark. Það kom henni upp í þriðja sætið í heildarstigakeppninni.

Þriðja greinin var hnébeygja, axlarpressa og réttstöðulyfta. Þar lyfti Katrín Tanja samtals 701 pundi eða rétt tæplega 318 kílóum. Hún endaði þó í fimmta og neðsta sæti í þeirri grein og er því í fjórða sæti í heildarstigakeppninni sem stendur. 

Hér er hægt að sjá stöðuna á heimsleikunum en að neðan má fylgjast með beinu streymi frá YouTube.