Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hval hf. gert að leiðrétta laun - 100 milljónir undir

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Hval hf. var í Landsrétti í dag gert að leiðrétta laun starfsmanna sem störfuðu á vegum fyrirtækisins á vertíð árið 2015. Upphæðin gæti numið í kringum hundrað milljónum króna, en fyrirtækið var að mestu sýknað fyrir vertíðirnar 2013 og 2014.

Málið snýst um það að Hvalur hf. var sakað um að greiða starfsmönnum ekki tiltekna greiðslu, sem kveðið var á um í ráðningarsamningi. Einnig var því haldið fram að Hvalur hf. hafi ekki greitt fyrir þá lögbundnu vikulegu frídaga sem starfsmenn misstu vegna mikils vinnuálags.

Alls féllu dómar í málum níu starfsmanna í dag en Verkalýðsfélag Akraness, sem hefur staðið í málaferlunum fyrir hönd starfsmanna Hvals hf., telur að um hundrað starfsmenn séu þar undir. Mál af þessum toga fór fyrir Hæstarétt árið 2018, sem úrskurðaði þá að Hval hf. bæri að greiða starfsmönnum þessa tilteknu greiðslu og bætur vegna missis frídaga. 

Verkalýðsfélagið reifar það á heimasíðu sinni í dag hvernig ný mál voru höfðuð í fyrra þar sem Héraðsdómur Vesturlands sýknaði Hval hf. af kröfum starfsmanna, en málunum var vísað áfram til Landsréttar. Þar féll úrskurðurinn starfsmönnunum í vil að hluta til í dag, þar sem Hval hf. var gert að greiða starfsmönnum þessa tilteknu greiðslu fyrir hverja vakt sem unnin var á vertíð 2015, en var ekki gert að leiðrétta greiðslur fyrir vertíðir 2013 og 2014.

Hval hf. er hins vegar gert að rétta hlut starfsmanna sem ekki fengu lögboðinn vikulegan frídag á vertíðum 2013, 2014 og 2015. Þá er fyrirtækinu gert að greiða starfsmönnum dráttarvexti af skuldum sínum, afturvirkt frá júlí 2017, og málskostnað fyrir Landsrétti.

Á vef Verkalýðsfélags Akraness segir að áætla megi að þessir dómar skili þeim 100 starfsmönnum sem um ræðir um 100 milljónum króna.