Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hryllileg tilfinning að riða greinist hjá manni

23.10.2020 - 20:17
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Bóndi á Hofi í Hjaltadal segir það hryllilega tilfinningu að bíða niðurstöðu sýnatöku. Sterkur grunur er um að riða sé komin upp á þremur bæjum til viðbótar í Skagafirði.

Friðrik Steinsson býr á Hofi ásamt konu sinni. Þau búa með nokkrar kindur. Fyrir nokkru fengu þau lamb hjá bóndanum á Stóru Ökrum þar sem riðusmit var staðfest fyrr í vikunni. Þegar þau heyrðu af smitinu létu þau dýralækni vita af gripnum sem þau höfðu fengið þaðan. Bráðabirgðaniðurstaða úr sýnatökunni gaf jákvætt svar í dag og því er líklegt að riða sé komin upp á Hofi og tveimur öðrum bæjum. Friðrik segir að það hafi verið mikið áfall að bíða á milli vonar og ótta eftir niðurstöðunni.

„Það var mjög óþægilegt. Ég var nú svo einfaldur. Mér fannst kindin svo frísk, þrílembd þetta árið og léttasta lambið 19 kíló og allt í gúddí eins og maður segir. Svo kemur þetta svona að hún er jákvæð og það er rosalegt sjokk, sérstaklega fyrir konuna, hún hringdi í mig grátandi og þetta er hryllileg tilfinning þó að þetta sé ekki stórt. Þess vegna skil ég vel að þeir sem eru á öðrum stöðum í sveitinni með stærri bú, þetta er svakalegt fyrir þá.“ 

Hefurðu rætt við aðra bændur eða Gunnar á Stóru Ökrum?

Nei, ég hef viljað gefa honum frið og fara í gegnum sín mál. Við komum til með að ræða þetta bara síðar. Fólk verður að fá tíma til að melta svona hluti.“ segir Friðrik.

Jón Kolbeinn Jónsson, héraðsdýralæknir á Norðurlandi vestra segir þetta vera bráðabirgðaniðurstöðu. Ekki sé hægt að fullyrða hversu útbreitt smitið sé á svæðinu. Niðurstöður sýnatökunnar muni gefa skýrari mynd af því um miðja næstu viku.

„Við vinnum samkvæmt svartsýnustu spám, gerum ráð fyrir því versta. Við erum að rekja gripi sem tengjast þessum bæjum og afkvæmum sem tengjast gripunum og erum að ná utan um umfang. Svo erum við að taka sýni jafnóðum af gripum sem eru líklegir og eins eru sláturhússýni“ segir Jón Kolbeinn. 

Stefnir á að taka fé að nýju

Friðrik gerir ráð fyrir að taka fé að nýju, ef niðurstaðan verður staðfest, eftir þann tíma sem þau mega ekki halda fé.

„Já já, ég býst nú við því. Konan er mikil áhugamaður um sauðfjárrækt, þó hún sé ekki stór hjá okkur þá býst ég fastlega við því að það verði teknar inn kindur aftur.“ segir Friðrik