Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu brást strax við í vikunni og bannaði öll persónuleg merki á einkennisbúningum lögreglumanna eftir að vakin hafði verið athygli í fjölmiðlum á merkingu fána á bringu lögreglumanns á nokkurra ára gamalli blaðaljósmynd.
Væru byrjuð ef ekki væri fyrir Covid
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri hefur verið í sambandi við alla lögreglustjóra landsins vegna þessa:
„Það eru bara allir sammála um það að skerpa á reglugerð sem er í gildi núna um einkennisfatnað og breyta henni. Og síðan vorum við byrjuð að leggja drög að aukinni fræðslu um hatursglæpi og alls kyns önnur mál líka, mansal og fleira. Vegna þess að eftir breytinguna á menntuninni þá er diplóma-námið kennt í háskólanum á Akureyri en engu að síður erum við líka farin að kenna ákveðna hluti sem tengjast jafnvel menningu og ýmissi þekkingu. Þannig að Menntasetur lögreglu er að fara af stað með víðtæka fræðslu. Við hefðum verið búin, byrjuð, ef það væri ekki fyrir svolítið í þessu samfélagi.“
Í lögreglunáminu á HA er kennt um hatursorðræðu en fyrr á árinu var búið að ákveða að skerpa á þeirri fræðslu.