Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fræða á lögreglumenn um hatursorðræðu

Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun / RÚV
Fræðsla um hatursorðræðu fyrir lögreglumenn er á döfinni fljótlega og líka verið að skerpa á henni í lögreglunáminu, segir ríkislögreglustjóri. Hún segir alla lögreglustjóra landsins sammála um að breyta búningareglugerð lögreglunnar að því er varðar merkjanotkun. Formaður Landssambands lögreglumanna segist ekki hafa áttað sig á merkingu fána á búningi lögreglumanns sem tengdir hafa verið hatursorðræðu og telur útilokað að lögreglumenn beri fána í slíkum tilgangi. 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu brást strax við í vikunni og bannaði öll persónuleg merki á einkennisbúningum lögreglumanna eftir að vakin hafði verið athygli í fjölmiðlum á merkingu fána á bringu lögreglumanns á nokkurra ára gamalli blaðaljósmynd. 

Væru byrjuð ef ekki væri fyrir Covid

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri hefur verið í sambandi við alla lögreglustjóra landsins vegna þessa: 

„Það eru bara allir sammála um það að skerpa á reglugerð sem er í gildi núna um einkennisfatnað og breyta henni. Og síðan vorum við byrjuð að leggja drög að aukinni fræðslu um hatursglæpi og alls kyns önnur mál líka, mansal og fleira. Vegna þess að eftir breytinguna á menntuninni þá er diplóma-námið kennt í háskólanum á Akureyri en engu að síður erum við líka farin að kenna ákveðna hluti sem tengjast jafnvel menningu og ýmissi þekkingu. Þannig að Menntasetur lögreglu er að fara af stað með víðtæka fræðslu. Við hefðum verið búin, byrjuð, ef það væri ekki fyrir svolítið í þessu samfélagi.“

Í lögreglunáminu á HA er kennt um hatursorðræðu en fyrr á árinu var búið að ákveða að skerpa á þeirri fræðslu. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Snorri Magnússon.

Segir bláu röndina tengda góðgerðasamtökum 

Snorri Magnússon formaður Landssambands lögreglumanna segist ekki hafa áttað sig á því hvað væri á ferðinni þegar sagt var frá þessu í fréttum fyrr í vikunni. 

„Efsti fáninn sem þarna er með blárri rönd er tengdur amerískum góðgerðasamtökum sem að heita The Thin Blue Line sem að styðja við fjölskyldur lögreglumanna sem hafa ýmist látist eða slasast við skyldustörf,“ segir Snorri.

Það má vel vera en allt frá því á áttunda áratug síðustu aldar hefur hin þunna bláa lína verið notuð í annarri verri merkingu. Frá því í sumar hafa bandarískir fánar með bláum línum verið fjarlægðir í kjölfar mótmæla sem brutust út eftir að lögreglumenn myrtu Georg Floyd. 

Snorri vísar í ummæli lögreglumannsins íslenska sem sagðist ekki hafa vitað um merkingu fánanna. 

„Það er bara algerlega útilokað að þessi fáni hafi verið borinn í einhverjum slíkum tilgangi, það er útilokað.“