Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Aðgerðir ríkisins kostað hátt í 100 milljarða

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bein útgjöld ríkisins vegna faraldursins hafa þegar numið tæplega 40 milljörðum króna. Þá nema tilfærslur og ábyrgðir tæplega 45 milljörðum og óafgreidd úrræði rúmum sjö og hálfum milljarði.

Þetta kemur fram í tölum sem Fjármálaráðuneytið birti á vef Stjórnarráðsins í dag. Þar kemur fram að rúmlega 21 milljarður hafi verið greiddur í hlutabætur til alls um 36 þúsund manns. Þegar mest var fengu um 33 þúsund manns greiddar hlutabætur en í september var talan komin niður í rúmlega þrjú þúsund og þrjú hundruð. Hátt í fjörutíu prósent þeirra sem fengið hafa hlutabætur starfa innan ferðaþjónustunnar. 

Icelandair fengið mest af launum á uppsagnarfresti

Um tíu milljarðar hafa farið til atvinnurekenda vegna launa á uppsagnarfresti. Það úrræði er enn í boði. Stærstur hluti þess hefur einnig farið til fyrirtækja í ferðaþjónustu. Icelandair hefur fengið rúma þrjá milljarða vegna þessa, Bláa lónið, Flugleiðahótel og Íslandshótel hafa fengið rúman milljarð hvert. 

Þá hafa um 260 milljónir króna verið greiddar vegna launa í sóttkví. Tæplega 2.000 manns hjá 823 atvinnurekendum  hafa fengið greitt laun fyrir rúmlega 16.000 daga í sóttkví. 

125 milljónir í lokaðar krár og skemmtistaði

Um eitt þúsund rekstraraðilar hafa fengið greiddan lokunarstyrk. Fjárhæð þeirra nemur um einum milljarði króna. Af þeim þúsund rekstraraðilum sem hafa fengið lokunarstyrk eru um 600 með einn starfsmann. Tveir þriðju hlutar styrkjanna fóru til fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, svo sem sjúkraþjálfara og tannlækna, og til hárgreiðslu nudd og snyrtistofa.  Þá hafa um 35 krár og skemmtistaðir fengið lokunarstyrk, en þeim hefur verði gert að loka í tvígang í vor og svo aftur nú í haust. Nema styrkir þangað um 125 milljónum króna. 

Í byrjun október höfðu alls tæpir 19 milljarðar verið greiddir úr séreignarsparnaði. Meðalgreiðsla til hvers einstaklings hefur verið um hálf milljón króna frá því að greiðslur hófust í apríl. Nú er gert ráð fyrir að samtals rúmum 23 milljarðar verði greiddir úr sjóðunum, þar af 21 milljarður á þessu ári.

742 rekstraraðilar hafa fengið tæpa sex milljarða í stuðningslán. Fyrirtæki í flestum greinum hafa fengið stuðningslán í einhverjum mæli en rúmlega 60 prósent  lánanna hafa verið veitt til fyrirtækja í ferðaþjónustu og 8 prósent í smásölu. Stærstur hluti stuðningslána hefur farið til fyrirtækja með færri en 10 starfsmenn, hvort sem litið er til fjárhæðar eða fjölda lána.

Aðeins þremur fyrirtækjum hefur verið veitt brúarlán með 70 prósent ábyrgð ríkissjóðs. Heildarupphæð þeirra lána nema 716 milljónum króna. Gert var ráð fyrir 35 til 50 milljörðum króna í það úrræði. Ráðuneytið tekur fram að stuðningslán hafi ef til vill mætt þeirri eftirspurn sem var eftir brúarlánunum.

Borga skattinn seinna

Staðgreiðslu tekjuskatts, útsvars og tryggingargjalds hefur verið frestað fyrir um 19 milljarða um miðjan október. Úrræðið fólst í upphafi í almennri heimild til frestunar á 50% af staðgreiðslu á gjalddaga í mars 2020. Í framhaldi var úrræðið þrengt og einskorðað við launagreiðendur sem stríða við tímabundna rekstrarörðugleika. Var þeim veitt heimild til að óska eftir frestun á allt að þremur mánaðarlegum greiðslum af níu á gjalddaga í apríl– desember 2020.

Auknar heimildir til að endurgreiða virðisaukaskatts hafa leitt til 2.182 m.kr. aukningar miðað við stöðu afgreiddra umsókna 22. október. Alls hafa borist um 8.800 endurgreiðslubeiðnir vegna bílaviðgerða og þar af hafa 6.900 beiðnir verið afgreiddar fyrir 134 m.kr. Vegna íbúðarhúsnæðis hafa um 7.000 umsóknir verið afgreiddar með 100% endurgreiðslu í stað 60% og nemur mismunurinn 1.926 m.kr.

170 þúsund sótt ferðagjöfina

170 þúsund einstaklingar hafa sótt ferðagjafir að andvirði 848 milljóna króna og 119 þúsund nýtt hluta þeirra sem er 38 prósent af þeim einum og hálfa milljarði sem úthlutað var í átakinu. Flestir nýta gjöfina í gistingu, veitingar eða afþreyingu. Hægt er að nýta hana út árið 2020. Ferðagjöfin hefur verið nýtt hjá rúmlega 800 fyrirtækjum.