Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Verkfallsaðgerðum í Straumsvík frestað

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Verkfallsaðgerðum starfsmanna í álveri Rio Tinto í Straumsvík sem hefjast áttu á morgun hefur verið frestað. Samninganefnd þeirra fimm stéttarfélaga hjá Rio Tinto sem höfðu samþykkt verkfallsboðun, fundaði með samninganefnd Samtaka atvinnulífsins fram á í nótt og aðaltrúnaðarmaður starfsmanna álversins segir að náðst hafi samkomulag sem hægt sé að byggja áframhaldandi viðræður á.

Í þessum fimm stéttarfélögum eru um 400 starfsmenn og hafa samningar þeirra verið lausir síðan í byrjun júlí. Upphaflega átti skæruverkfall að hefjast í síðustu viku til að knýja á um samninga, en því var frestað til föstudags, á morgun, eftir að samkomulag náðist við stjórnendur álversins.

„Við sátum á fundi til að verða tvö í nótt, “ segir Reinhold Richter er aðaltrúnaðarmaður starfsmanna álversins. „Við komumst að ákveðnu samkomulagi um áframhald á viðræðum sem leiddi til þess að frestuðum verkfallli sem átti að hefjast á  morgun, föstudag. Og erum að stefna að því að klára viðræður á næstunni,“

Reinhold segir að næsti fundur verði hjá ríkissáttasemjara á fimmtudaginn í næstu viku. Hann segir að deiluaðilar hafi komist að samkomulagi sem ekki sé hægt að greina frá á þessu stigi málsins og bindur vonir við að það leiði til þess að skrifað verði undir kjarasamninga.

„En við erum komin með grundvöll sem við viljum byggja á. Bindandi samkomulag um vissa hluti sem hugnast okkur,“ segir Reinhold.

Spurður hvort hann telji að starfsfólk álversins muni samþykkja samning sem myndi byggja á þessu samkomulagi segist hann telja það. „Já, ég held það. Ég á eftir að kynna þetta fyrir mínu fólki og er bara að fara í það.“