
Útgerðin hafnaði tilmælum læknis um að koma í land
Þar segir jafnframt að samkvæmt upplýsingum frá umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum hafi verið óskað eftir því við útgerðina að skipið kæmi í land vegna veikinda skipverja. Beiðnin hafi svo verið ítrekuð þegar leið á veiðiferðina og fleiri veiktust. Útgerðin hafi hafnað þessum beiðnum.
Sjómannasambandið segist líta viðbrögð útgerðarinnar alvarlegum augum og að hún hafi hunsað skýr tilmæli til útgerða og sjómanna um hvernig ætti að bregðast við ef veikindi kæmu upp um borð. Tilmælin voru send út þegar faraldurinn hófst.
Sambandið telur að í þessu tilviki virðist útgerðin einungis hafa hugsað um fjárhagslegan ávinning fremur en heilsu og velferð áhafnarinnar. Það krefjist þess að íslenskar útgerðir fari að tilmælum og stofni ekki lífi og limum áhafna sinna í hættu að óþörfu.