Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Tjaldsvæðið við Þórunnarstræti tekið af skipulagi

22.10.2020 - 18:47
default
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Bæjarstjórn Akureyrarbæjar hefur samþykkt breytingar á aðalskipulagi fyrir svokallaðan Tjaldsvæðisreit, sem þýðir að tjaldsvæðið við Þórunnarstræti verður lagt af. Ný heilsugæslustöð verður meðal annars byggð á þessu svæði.

Bæjarstjórn samþykkti á síðasta fundi sínum tillögu skipulagsráðs um að auglýsa lýsingu á breyttu aðalskipulagi fyrir Tjaldsvæðisreitinn.

Meðal annars byggð þarna ný heilsugæslustöð

Svæðið er í dag að hluta skilgreint sem íbúðarsvæði, samfélagsþjónusta og verslun og þjónusta. Í breytingunni er gert ráð fyrir að allt svæðið verði skilgreint sem miðsvæði með blandaðri landnotkun, samfélagsþjónustu, verslun og þjónustu og íbúðarsvæði. „Er meðal annars gert ráð fyrir að á svæðinu verði byggð heilsugæslustöð,“ segir í skipulagslýsingunni.

Í mörg ár hefur verið rætt um að leggja niður tjaldsvæðið við Þórunnarstræti. Þetta svæði hefur þótt áhugavert til að þétta byggð og byggja upp íbúðir eða þjónustu. Umhverfis- og mannvirkjaráð samþykkti svo í febrúar 2019 að tjaldsvæðið verði lagt af eftir árið 2020, eða þegar svæðið á Hömrum geti tekið við viðskiptavinum þaðan. Segja má að bæjarstjón sé með samþykkt sinni núna að reka endapunktinn á þessi áform.

Tjaldsvæði við Þórunnarstræti í áratugi

Þetta er merkilegt í sögulegu samhengi því tjaldsvæði hefur verið þarna í hjarta bæjarins svo lengi sem elstu menn muna. Tjaldsvæðin við Þórunnarstræti og á Hömrum eru bæði rekin af skátunum og reksturinn við Þórunnarstræti hefur þótt óhagkvæmur. Tjaldsvæðið lítið og ekki þótt passa að bjóða fólki gistingu með bílaumferð allt í kring. Mun hagkvæmara væri að færa reksturinn inn á Hamra.