Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þrír handteknir vegna gruns um brot á sóttvarnalögum

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögeglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af þremur mönnum á níunda tímanum í gærkvöldi vegna gruns um brot á sóttvarnalögum, en þeir áttu að vera í einangrun vegna COVID-19 smits. Einn maðurinn var handtekinn vegna hótana og vistaður í fangageymslu.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Af öðrum verkefnum lögreglu má nefna að tilkynnt var um tilraun til ráns í söluturni í Árbæ. Þar hafði maður komið inn með eggvopn í hendi og ógnað starfsstúlku. Er viðskiptavini bar að, hljóp maðurinn tómhentur á brott. 

Tilkynnt var um líkamsárás í Hafnarfirði um klukkan sjö í gærkvöld. Árásarmaðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins og sá sem fyrir árásinni varð var fluttur með sár á höfði á bráðadeild til aðhlynningar.

Þá voru fjórir ökumenn stöðvaðir vegna gruns um að hafa ekið undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Meðal þeirra var 17 ára stúlka sem var stöðvuð í Laugardal, grunuð um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna. 

 

Tilkynnt var um þjófnað úr verslun við Granda þar sem maður var grunaður um að hafa stolið matvöru fyrir rúmlega 26 000 krónur. Maðurinn sagðist ekki hafa átt fyrir vörunum.  

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir